Fréttasafn



21. jan. 2026 Almennar fréttir Mannvirki

Mikið framkvæmdaár í uppsiglingu

„Það er mikið framkvæmdaár í uppsiglingu ef marka má þær upplýsingar sem komu fram á útboðsþinginu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu í kjölfar útboðsþings samtakanna sem var haldið í gær. 

Sigurður segir áformaðar fjárfestingar vera met ef litið er til útboðsþinga síðustu ára og jákvætt að sjá aukið umfang fjárfestinga nú þegar hagkerfið sé að kólna. „Þetta er rétti tíminn til framkvæmda.“

Í fréttinni kemur fram að opinberir aðilar sem tóku þátt í útboðsþinginu áætla 221 milljarð króna í verkleg útboð á árinu. Aðspurður segir Sigurður að ákjósanlegt væri að upphæðin væri hærri en á móti komi að meiri vissa sé í áætluðum fjárfestingum og sú tala hækki milli ára. Landsvirkjun, Nýr Landspítali og Framkvæmdasýslan séu með 66% af fyrirhuguðum útboðum á árinu. Landsvirkjun áætli útboð fyrir 70 milljarða króna, Nýr Landspítali 41 milljarð og Framkvæmdasýslan 35,7 milljarða króna. 

Morgunblaðið, 21. janúar 2025.

Morgunbladid-21-01-2026