Fréttasafn9. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Framleiðsla

Mikil áhrif álframleiðslu á velmegun síðustu 50 ár

Tímabil 50 ára sögu álframleiðslu hér á landi er það tímabil þegar fór að skilja á milli efnahagslegrar velmegunar hér á landi og í flestum öðrum Evrópuríkjum. Landsframleiðsla á mann, sem er mælikvarði á efnahagslega velmegun, fór á þessum tíma úr því að vera á pari við Evrópu yfir í að vera um helmingi meira. Fjölmargir þættir skýra þessu miklu breytingu en stór hluti skýringarinnar er að við tökum á þessum tíma að nýta þá tækni sem einkenndi iðnbyltingarnar til að nýta náttúruauðlindir lands og sjávar. Hluti þessa var rafmagnsframleiðsla með hjálp fallvatnanna sem er lykilinn að álframleiðslu hér á landi. Þetta kom meðal annars fram í máli Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, á ársfundi Samáls sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í morgun. 

Fjölbreytni útflutnings aukist með álinu

Ingólfur sagði að á þessum 50 árum hafi velmegun aukist mikið en landsframleiðsla á mann hafi farið úr því að vera 2,4 m.kr. í 7,9 m.kr. sem er 229% aukning. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi aukist um 275%. Þá hafi fjölbreytni útflutnings aukist og útflutningur iðnaðarvara farið úr 11 mö.kr. í 321 ma.kr. sem er 2.660% aukning. Jafnframt sagði hann að stöðugleikinn hafi aukist og verðbólgan farið úr 20% í 3%.

Heildarframlag álsins 1.150 milljarðar króna á 50 árum

Þá kom fram í máli Ingólfs að á síðustu 50 árum hafi álframleiðsla skilað um 870 milljörðum króna í hlut launþega álfyrirtækja og fyrirtækjaeigenda á núvirði og það væri hið beina framlag. Óbeint framlag væri sá virðisauki sem atvinnuvegur skapar með viðskiptum sínum við aðra atvinnuvegi. Hugtakið byggi á þeirri forsendu að viðskipti atvinnuvega við aðra auki á virðisauka þeirra síðarnefndu, t.d. vegna meiri framleiðslu. Gróflega megi áætla að óbeint framlag álframleiðslunnar hafi verið um 880 milljarðar króna og er þá stuðst við margfaldara Hagfræðistofnunar sem er á þá leið að einnar krónu virðisauki í álframleiðslu skapar ríflega 1 krónu virðisauka í annarri starfsemi í hagkerfinu. Ingólfur sagði að heildarframlag væri því ríflega 1.750 milljarðar króna sem er um 62% af landsframleiðslu síðastliðins árs. Hann sagði að athuga þyrfti að rekstrarafgangur af álframleiðslu falli ekki í hlut Íslendinga. Að frádregnum hagnaði álveranna væri beint og óbeint framlag greinarinnar til innlendra verðmætasköpunar 1.140 ma.kr. Til að setja þetta í samhengi sagði Ingólfur að það jafngilti um 41% af landsframleiðslu síðastliðins árs.

Álframleiðsla mikilvæg fyrir landsbyggðina

Ingólfur vék að mikilvægi álframleiðslu fyrir landsbyggðina og sýndi hvernig þróunin hefur verið á Austurlandi þar sem framleiðsla á mann fór frá því að vera 30% minni en höfuðborgarbúa árið 2000 í að vera 10% yfir höfuðborginni árið 2006. Hann sagði að uppbygging álframleiðslu á Austurlandi hafi snúið við þeirri stöðugu fólksfækkun sem hafi verði þar um langt skeið. Hann sagði ljóst að uppbygging stóriðju skapaði ýmis störf, bæði við virkjanaframkvæmdir, uppbyggingu verksmiðja og rekstur þeirra. Í sumum tilfellum væri um að ræða sérhæfð störf, sem hugsanlega hefðu ekki ella orðið til, í öðrum tilfellum almennari störf, t.d. við ýmis konar þjónustu. Tilkoma álvera geti því verið góð kjölfesta fyrir atvinnulíf viðkomandi svæðis. 

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum.  

Á vef mbl.is er hægt að nálgast beina útsendingu frá fundinum. 

Samal_arsfundur_2019-23


Samal_arsfundur_2019-54Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.