Fréttasafn20. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Mikil ásókn í Ask sem þarf meira fjármagn að mati SI

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022 kemur fram að samtökin bendi á að afar mikilvægt sé að tryggja frekara fjármagn í Ask – mannvirkjasjóð svo unnt sé að stuðla að markvissari rannsóknum og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar til framtíðar, þar á meðal vistvænum byggingarefnum.

Mikil ásókn er í styrki úr sjóðnum en á  vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, kemur fram að í fyrsta umsóknarferli sjóðsins hafi 40 aðilar sótt um ríflega 454 milljón króna styrki í Ask en til úthlutunar eru 95 milljónir króna. 

Askur er nýr mannvirkjarannsóknasjóður í eigu félagsmálaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. HMS annast rekstur og daglega umsýslu hans. Sjóðurinn veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum í mannvirkjagerð. Framvegis verður auglýst eftir umsóknum í Ask í september á ári hverju.