Fréttasafn



7. maí 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Mikil efnahagsleg áhrif byggingariðnaðar

„Staða byggingariðnaðarins hér á landi er öflug og efnahagsleg áhrif atvinnugreinarinnar eru mikil. Velta greinarinnar nemur 655 milljörðum króna á ári, sem jafngildir því að í hverri einustu viku er í íslenskum byggingariðnaði unnið að verkefnum að verðmæti yfir 12,6 milljarða króna,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í sérblaði Viðskiptablaðsins um stórsýninguna  Verk og vit sem haldin verður í Laugardalshöll á næsta ári. Hún segir að á Íslandi gegni greinin lykilhlutverki og skipti sköpum fyrir vöxt, lífsgæði og framtíðarsýn landsins. Samt sem áður sé hún oft vanmetin og jafnvel töluð niður í umræðu um samfélagslega þróun og mikilvægi. 

19 þúsund starfandi í grein sem skilar 188 milljarða skattspori

Jóhanna Klara segir í viðtalinu að innan greinarinnar starfi um 19 þúsund manns eða nær 9% af öllum starfandi. Þá sé skattspor iðnaðarins hátt eða 188 milljarðar króna. „Þessar tölur sýna okkur hversu stóran þátt greinin á í að fjármagna sameiginlega þjónustu, menntun, heilbrigðiskerfi og innviði.“ Hún segir að ekki megi heldur gleyma fjölda fyrirtækja í greininni. „Þau eru um 2.500 talsins og mynda fjölbreytta virðiskeðju, frá verkfræðiog arkitektastofum til smiða, frá jarðvinnu- og byggingaverktökum til malbikunar stöðva og frá húseiningar framleiðslu til þekkingarfyrirtækja. Þetta eru bæði lítil og stór fyrirtæki, dreifð um landið allt, sem öll eiga það sameiginlegt að leggja sitt af mörkum til að byggja Ísland upp.“ 

Mikilvægt að hlúa að þessari undirstöðugrein

Í greininni segir að íslenskur byggingariðnaður hafi frá upphafi tekist á við séríslenskar áskoranir, eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð, vindkælingu og vatnselg og skapi úr því búsetuskilyrði sem standist samanburð við fremstu ríki. Jóhanna Klara segir að saga byggingar á Íslandi sé saga þróunar og þrautseigju, frá fyrstu torfbæjum landnámsmanna til steinsteyptu blokkanna, nauðsynlegra innviða og glæsilegra menningarhúsa nútímans, hafi byggingariðnaðurinn ávallt verið í forgrunni samfélagslegrar umbreytingar. „Það er því engin tilviljun að stór hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar tengist byggingum og mannvirkjum, hvort sem það eru þorpin við sjávarsíðuna, virkjanir, samgöngumannvirki eða háhýsi miðborgarinnar. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að hlúa að þessari undirstöðugrein til framtíðar.“  

Skortur á iðnmenntuðu fólki hér á landi

Þrátt fyrir sterka stöðu stendur byggingariðnaðurinn frammi fyrir töluverðum hindrunum segir Jóhanna Klara í viðtalinu. Ný skýrsla Alþjóðabankans undirstriki meðal annars að íslenskur byggingariðnaður, líkt og önnur fyrirtæki í landinu, glímir við verulegar áskoranir í starfsumhverfinu. „Þar kemur m.a. fram að helsta hindrun í rekstri fyrirtækja sé skortur á mannauði með næga menntun og þjálfun. Um 19% stjórnenda íslenskra fyrirtækja nefna þetta sem alvarlegustu hindrunina, hæsta hlutfallið í öllum þáttum könnunarinnar.“ Hún segir að sérstaklega hafi verið skortur á iðnmenntuðu fólki hér á landi og árlega sé 600-1.000 nemendum vísað frá iðnnámi vegna skorts á fjármagni og húsnæði. „Þetta er grafalvarlegt í ljósi mikillar eftirspurnar eftir iðnmenntuðu starfsfólki og vaxtar í byggingargeiranum. Vandinn hefur áhrif á afkastagetu, gæði framkvæmda og hraða uppbyggingar. Til að byggja framtíðina þurfum við ekki aðeins vélar og efni, við þurfum líka fólk með viðeigandi þekkingu og menntun.“ 

Verulegar tafir á afgreiðslu opinberra leyfa

Þá segir Jóhanna Klara í viðtalinu að einnig hafi leyfisveitingarferli reynst flókið og tímafrekt en langt leyfisveitingaferli dragi úr vilja til fjárfestinga og uppbyggingar. „Könnun Alþjóðabankans undirstrikar þetta en þar kemur fram að fyrirtæki hér á landi standi frammi fyrir verulegum töfum á afgreiðslu opinberra leyfa. Að meðaltali tekur t.d. 109 daga að fá byggingarleyfi samanborið við 92 daga í Evrópu og MiðAsíu. Einnig hefur verið bent á að skortur á lóðum sé verulega takmarkandi þáttur í uppbyggingu og við hjá Samtökum iðnaðarins teljum mikla þörf á endurskoðun skipulagsmála.“ Hún segir að þegar framkvæmdir dragist eða stöðvist vegna tafa í ferlum þá þýði það ekki einungis tafir fyrir framkvæmdaaðila, heldur einnig fyrir heimilin, fyrirtækin og samfélagið sem bíða eftir nýju húsnæði, skólum, vegum eða heilbrigðisstofnunum. 

Skapa þarf skilyrði fyrir áframhaldandi vöxt

Jafnframt kemur fram að í áskorunum liggi einnig tækifæri og segir Jóhanna Klara að með því að einfalda leyfisferli og hraða skipulagi, auka menntun og þjálfun í iðngreinum, nýta nýjustu tækni og hvetja til nýsköpunar í framkvæmdum, geti Ísland verið þátttakandi í að móta mannvirkjagerð til framtíðar. „Við sjáum nú þegar þróun í átt að sjálfbærri byggingum og aukna áherslu á bætta orkunýtingu og lækkun kolefnisspors.“ Hún segir að það sé ljóst að samfélagið muni áfram krefjast uppbyggingar nýrra hverfa, endurnýjaðra samgangna, skóla og framtíðar heilbrigðiskerfis sem kalli á áframhaldandi kraft frá byggingariðnaðinum og skýra sýn stjórnvalda. „Íslenskur byggingariðnaður er ekki aðeins mikilvægur í efnahagslegu samhengi, hann er burðarás í samfélagslegri framtíðarsýn. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að styðja við greinina og bæta hana, skapa skilyrði fyrir áframhaldandi vöxt og tryggja að unga fólkið sjái framtíð í iðngreinum.“ 

SI meðal bakhjarla stórsýningarinnar Verk og vit

Þá segir í niðurlaginu að Samtök iðnaðarins séu meðal bakhjarla stórsýningarinnar Verk og vit. „Það er mikilvægt að við höfum í huga að allt sem við eigum, frá leikskóla til verkstæðis og frá sjúkrahúsi til heimilis, sé til orðið fyrir tilstuðlan þeirra sem byggja. Þeirra sem mæta snemma til vinnu með verkfæri í hönd og leggja sitt af mörkum til að gera Ísland að samfélagi,“ segir Jóhanna Klara.

Hér er hægt að nálgast sérblað Viðskiptablaðsins um Verk og vit.

VVforsida-1

Viðskiptablaðið, 30. apríl 2025.

VV-bls-4-1