Fréttasafn



3. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Mikil fólksfjölgun kallar á fleiri nýjar íbúðir

Í nýjum gögnum Hagstofunnar um fólksfjölda kemur fram að landsmönnum fjölgaði um 3.260 á þriðja ársfjórðungi. Í sögulegu ljósi er það mikil fólksfjölgun og önnur mesta fjölgun sem hefur verið á einum ársfjórðungi frá efnahagsáfallinu 2008. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur landsmönnum fjölgað um 6.240 það sem af er ári.

Að mati Samtaka iðnaðarins eru þetta vísbendingar um mikla og vaxandi þörf fyrir nýjar íbúðir. Þörf þeirrar fólksfjölgunar sem var á þriðja ársfjórðungi nemur tæplega 1.500 nýjum íbúðum ef miðað er við 2,2 íbúa í íbúð. Ef horft er til fólksfjölgunar það sem af er ári er þörfin tæplega 3.000 nýjar íbúðir miðað við sömu forsendur eða 2,2 í íbúð.

Samtök iðnaðarins telja ekki ólíklegt að á fjórða fjórðungi ársins verði veruleg fólksfjölgun ef horft er til vísbendinga um vöxt hagkerfisins. Því má reikna með að þörf fyrir nýjar íbúðir á árinu verði jafnvel yfir því 3.500 íbúða marki sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur metið að þörf sé á. Samkvæmt þessu eru nýjar íbúðir sem eru að koma inn á markaðinn langt undir þörf.


Fólksfjölgun og íbúðaþörf