Fréttasafn12. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök sprotafyrirtækja

Mikil tækifæri felast í að tengja saman hagsmunaaðila

Nanna Elísa Jakobsdóttir og Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjórar á iðnaðar- og hugverkasviði SI, áttu nýverið fund með Magnusi Rehn, sænskum sérfræðingi í nýsköpun, sjálfbærni og orku. Rehn hefur átt mikinn þátt í þróun og umbótum nýsköpunarumhverfisins í Svíþjóð. Á grunni þeirrar reynslu hefur hann stutt við verkefni í Afríku, Asíu og annars staðar í Evrópu. Þá hefur hann með góðum árangri tengt nýsköpunarfyrirtæki við fjárfesta. Rehn starfar með stærsta og öflugasta viðskiptahraðli í Svíþjóð, Sting, og hefur í gegnum hann þjálfað yfir 50 frumkvöðlafyrirtæki. Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ALOR og stjórnarkona í Samtökum sprotafyrirtækja, skipulagði heimsóknina og sat fundinn. 

Á fundinum kom meðal annars fram að mikil tækifæri felist í því að tengja íslenska hagsmunaaðila við hagsmunaaðila í Svíþjóð og annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig kom fram að samstarf væri eitt mikilvægasta hráefnið til þess að skapa öflugt nýsköpunarumhverfi en nauðsynlegt væri að aðilar með ólíka þekkingu komi að borðinu til þess að hægt væri að styðja við það að rannsóknir og þróun verði að öflugum fyrirtækjum sem leysa samfélagsleg vandamál. 

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Nanna Elísa Jakobsdóttir, Linda Fanney Valgeirsdóttir, Magnus Rehn og Erla Tinna Stefánsdóttir.