Fréttasafn16. mar. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Fasteignatækni er vaxandi iðnaður

Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu, og Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi aðalræðisskrifstofu Íslands í New York skrifa um fasteignatækniiðnað (e. Proptech) í grein á Vísi undir yfirskriftinni Mikil tækifæri framundan í fasteignatækniiðnaði. 

Í greininni kemur fram að fasteignatækni sé regnhlífarhugtak yfir tæknifyrirtæki sem vinna með fasteignir á einn eða annan hátt. Starfsemi þessara fyrirtækja geti falið í sér undirbúning framkvæmda, hönnun, uppbyggingu, rekstur, leigu og umbreytingu fasteigna með tækni, en öll eigi þessi fasteignatæknifyrirtæki það sameiginlegt að hafa tækniþróun og -notkun sem ráðandi þátt í starfsemi sinni.

Fjöldi fyrirtækja á Íslandi í fasteignatækni

Þau segja að á Íslandi starfi fjöldi slíkra fyrirtækja og sé fasteignatækni vaxandi iðnaður. Flest þessara fyrirtækja bjóði upp á eða séu að þróa hugbúnaðarlausnir og sum þeirra framleiði einnig tækjabúnað. Fyrirtækin eigi það mörg sameiginlegt að vinna með lausnir sem snúi að sjálfbærni með því að veita yfirsýn og hafa stjórn á kolefnisfótspori, auðlindanotkun og orku. Mörg þeirra myndu jafnframt flokkast undir það að vera svokölluð fjártæknifyrirtæki (e. Fintech) sem einnig sé vaxandi grein hér á landi.

Efla tengslanet í fasteignatækniiðnaði

Í greininni segir að á Norðurlöndunum hafi fasteignatæknifyrirtæki tengst í samtökum í hverju landi. Þannig hafi myndast net tengiliða þar sem fyrirtækin deili þekkingu á því hvernig nálgast megi fjárfesta sem hafi áhuga á þessum flokki fyrirtækja og viðskiptahraðla sem henti þeim. Þá kemur fram í greininni að Samtök iðnaðarins í samstarfi við Nordic Innovation House í New York hafi staðið fyrir opnum rafrænum kynningarfundi um fasteignatækniiðnaðinn á Íslandi fyrir skömmu. Innan Samtaka iðnaðarins séu aðildarfyrirtæki sem starfi á sviði fasteignatækni og kynningarfundurinn hafi verið fyrsta skrefið í þá átt að efla tengslanet þessara aðila og auka upplýsingagjöf til fyrirtækja í fasteignatækniiðnaði.

Í niðurlagi greinarinnar hvetja þau áhugasama til að hafa samband við sig til að nálgast upplýsingar og taka þátt í starfi fasteignatæknihópsins á Íslandi innan Samtaka iðnaðarins og í starfi Nordic Innovation House í New York.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.