Fréttasafn



31. jan. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Mikil þörf á fjárfestingum í raforku, húsnæði og samgöngum

Árni Sigurjónsson, formaður SI, flutti ávarp um leið og hann setti Útboðsþing SI 2024 sem fór fram í Háteig á Grand Hótel Reykjavík 30. janúar fyrir fullum sal. Þar sagði hann að innviðir okkar væru í misjöfnu ástandi. Mikil og aðkallandi þörf væri á fjárfestingum í raforkukerfinu, húsnæðismálum og samgöngumálum. Skortur á nægri uppbyggingu á þessum sviðum sé farinn að þrengja umtalsvert að vaxtargetu hagkerfisins og þar með getu okkar til að skapa góð efnhagsleg lífsgæði fyrir framtíðarkynslóðir. „Við getum – og eigum – að gera betur í þessum efnum.“

Hér er ávarp formanns SI í heild sinni: 

„Ég býð ykkur öll velkomin á okkar árlega Útboðsþing Samtaka iðnaðarins, sem haldið er í samstarfi við Félag vinnuvélaeigenda og Mannvirki – félag verktaka. Þessi viðburður er meðal þeirra rótgrónustu í 30 ára sögu samtakanna, því fyrsta Útboðsþing SI var haldið árið 1997.

Íslenskur mannvirkjaiðnaður er meðal stærstu stoða landsframleiðslunnar og mikilvægt er að hlúa vel að þeim iðnaði. Markaður mannvirkjaiðnaðar hefur löngum verið óstöðugur og þurft að þola óeðlilegar upp- og niðursveiflur. Hafa þær sveiflur gengið í takt við almennar markaðsaðstæður í landinu, oft með ýktari hætti þó, þar sem þessi grein hefur oft á tíðum verið nýtt til sveiflujöfnunar í hagstjórnaraðgerðum hins opinbera.

Á fjölmennu Mannvirkjaþingi Samtaka iðnaðarins í byrjun nóvember kynnti Mannvirkjaráð SI nýja stefnu ráðsins, en ráðið er stefnumarkandi vettvangur allrar virðiskeðju mannvirkjagerðar innan Samtaka iðnaðarins. Sú stefna talar að hluta til beint inn í þessar óstöðugu markaðsaðstæður sem fyrirtækjum í greininni er gert að starfa við, þar sem meðal stefnumarkmiða ráðsins eru stöðugar innviðafjárfestingar sem mæti þörfum samfélagsins.

Mannvirkjaráðið kallaði eftir raunhæfum og fyrirsjáanlegum áætlunum um uppbyggingu innviða sem fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði geti treyst og þannig byggt upp stöðugan rekstrargrundvöll auk þess sem nauðsynlegt væri að draga úr sveiflum í nýfjárfestingum og fjárfestingum í viðhaldi innviða.

Fleiri aðgerðir tengdar innviðauppbyggingu eru í stefnu ráðsins en það eru helst þær aðgerðir sem ég nefndi hér áðan sem tala beint inn í Útboðsþingið, þar sem okkar helstu opinberu verkkaupar í innviðauppbyggingu landsins kynna áætlanir sínar og áform um nýfjárfestingar og viðhald.

Markaðsaðstæður þessara félagsmanna okkar er stór breyta þegar kemur að starfsumhverfi þeirra, en síður en svo sú eina. Með hagkvæmu, stöðugu og skilvirku starfsumhverfi er unnt að draga úr sóun, sem skilar sér í hagstæðari tilboðum og þar af leiðandi lægri kostnaði hins opinbera af rekstri verklegra framkvæmda.

Innviðaskýrsla Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga, sem kynnt var árið 2021 og fjallar um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi, bendir á að fjárfesting í innviðum hér á landi sé ónóg sem hafi valdið því að ástand þeirra er víða óviðunandi og uppsöfnuð fjárfestingarþörf er talsverð. Því miður bendir fátt til þess að ástand innviða hafi batnað frá útgáfu skýrslunnar en fjármagni sem varið hefur verið í viðhald hefur verið undir þörf.

Innviðir leggja grunn að verðmætasköpun og blómlegu lífi landsmanna, landið um kring. Líkt og fram kemur í skýrslunni, er það er aðdáunarvert hvernig forfeður okkar, sem bjuggu við mun þrengri efnahagslegar aðstæður en við gerum í dag, byggðu upp innviði landsins og lögðu þannig grunn að verðmætasköpun dagsins í dag.

Innviðir okkar eru í misjöfnu ástandi. Mikil og aðkallandi þörf er á fjárfestingum í raforkukerfinu, húsnæðismálum og samgöngumálum. Skortur á nægri uppbyggingu á þessum sviðum er farinn að þrengja umtalsvert að vaxtargetu hagkerfisins og þar með getu okkar til að skapa góð efnhagsleg lífsgæði fyrir framtíðarkynslóðir. Við getum – og eigum – að gera betur í þessum efnum.

Það er von okkar að greining Samtaka iðnaðarins á boðuðum útboðum á verklegum framkvæmdum ársins, ásamt kynningum þátttakenda á þessu þingi nýtist ykkur öllum við áætlanagerð og störf á þessu ári.

Um leið og ég þakka Félagi vinnuvélaeigenda og Mannvirki – félagi verktaka fyrir samstarfið við undirbúning þingsins, og sömuleiðis þátttakendum í dagskránni hér í dag fyrir sína vinnu, fel ég Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, fundarstjórnina. Útboðsþing SI 2024 er hér með sett.“

Si_utbodsthing_2024-6_1706705451809Árni Sigurjónsson, formaður SI.