Fréttasafn



27. mar. 2023 Almennar fréttir Menntun

Mikil þörf fyrir verknám

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, tók þátt í pallborðsumræðum á málþingi VMA í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Yfirskrift málþingsins var Hlutverk VMA í breyttri heimsmynd – mikilvægi skólans í nærsamfélaginu. Framsöguerindi fluttu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Tryggvi Thayer, menntunar- og framtíðarfræðingur hjá Menntavísindasviði HÍ, og Anna Kristjana Helgadóttir, útskrifaður rafeindavirki frá VMA árið 2021. Á síðari hluta málþingsins sátu frummælendur í pallborði sem og Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðnbrautar VMA, Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis-Norðlenska, Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs, Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Fundarstjóri var Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri hjá Norðurorku.

Ingólfur kom inn á í sínu innleggi að 47 þúsund manns starfi í iðnaði á Íslandi og að mikil þörf væri fyrir verknám út um allt land. Hann sagði VMA vera afar mikilvægan fyrir iðnaðinn á svæðinu sem og á landinu öllu. Ingólfur sagði mikinn vöxt hafa verið í iðnaði síðustu árin og hafi starfandi í greininni fjölgað um 13 þúsund á síðustu tíu árum. Af þessum þrettán þúsund störfum á liðnum áratug sagði Ingólfur að um helmingur væri vinnuafl erlendis frá. Með öðrum orðum væri ekki til vinnuafl í landinu til þess að mæta þessari eftirspurn. Ingólfur sagði fyrir liggi að áfram verði að leggja höfuðáherslu á menntun fólks í verkgreinum. Hann sagði að í könnun meðal aðildarfyrirtækja SI hafi komið fram að 48% iðnfyrirtækja segja vera skort á starfsfólki og af þeim eru 56% sem segja að það skorti iðnmenntað starfsfólk. Ingólfur sagði að fleiri þurfi að ljúka námi og draga þyrfti úr brottfalli.

Myndir: Hilmar Friðjónsson.

Á vef VMA er hægt að nálgast frekari upplýsingar um fundinn.

23.03.2023-VMA-Malthing-i-Hofi-2964Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

23.03.2023-VMA-Malthing-i-Hofi-2440Ingólfur og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.