Fréttasafn18. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Mikil uppbygging í nágrannasveitarfélögum

„Staðreynd málsins er sú að húsnæði er grunnþörf og öll þurfum við þak yfir höfuðið. Húsnæði er sennilega stærsta og mikilvægasta fjárfesting hverrar fjölskyldu þannig að það skiptir miklu að það sé nægt framboð af húsnæði en svo hefur ekki verið raunin.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Þorgeir Ástvaldsson, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. 

„Það hefur fyrst og fremst skort lóðir undir nýtt húsnæði en nú er staðan hinsvegar sú að það er mikið í pípunum. Það er meiri uppbygging núna en við höfum séð áður á höfuðborgarsvæðinu en það sem vekur athygli er að það er líka talsvert mikil uppbygging í nágrannasveitarfélögunum, eins og Reykjanesi, Árborg og Akranesi, í þessum bæjum sem eru í ákveðnum radíus frá höfuðborgarsvæðinu.“ Sigurður segir að þetta segi tvennt; að það sé mikil uppbygging á þessum stöðum meðal annars vegna ferðaþjónustunnar en líka að fólk sæki á þessi svæði vegna þess að húsnæði er ódýrara þar.  

Hann segir jafnframt í viðtalinu að nú sé góður tími til fjárfestinga vegna þess að nú sé að hægja á hagvextinum og þar með skapist ákveðið svigrúm fyrir innviðauppbyggingu eins og í húsnæði. „Það er margt sem mælir með því að ráðast í mikla uppbyggingu en auðvitað þarf að fylgjast vel með og passa sig á að það sé ekki of mikið byggt.“ 

Á Vísi er er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.