Fréttasafn11. jan. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök upplýsingatæknifyrirtækja

Mikil uppsöfnuð þörf á starfsfólki í hugverkaiðnaði

Gunnar Zoëga, forstjóri Opinna kerfa og formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, segir í ViðskiptaMogganum að staðan erlendis hjá upplýsingatæknifyrirtækjum sé ekki farin að smitast hingað en í fréttinni kemur fram að nokkrir mánuðir séu liðnir frá því tæknirisar erlendis fóru að tilkynna um uppsagnir starfsfólks. Gunnar segir jafnframt í fréttinni að það væri frekar að erfiðleikar almennt í efnahagslífi heimsins gætu haft áhrif á viðskiptavini stórra íslenskra upplýsingtæknifyrirtækja, sem þá gætu haft áhrif á starfsemi þeirra. „Uppsöfnuð þörf á starfsfólki í hugverkaðiðnaði hér á landi er enn mikil.“

Liðka fyrir komu erlends starfsfólks hingað til lands

Gunnar segir einnig í ViðskiptaMogganum að íslensk upplýsingatæknifyrirtæki séu ekki enn farin að sjá minni eftirspurn þrátt fyrir að mörg stærri hagkerfi heimsins hafi hægt á sér að hluta. „Það vantar hundruð þúsunda, jafnvel milljónir manna til starfa í hugverkaiðnaði um allan heim. Þetta er iðnaður framtíðarinnar og þörfin mun bara aukast ef eitthvað er.“ Hann segir að öfugt við þessar fréttir erlendis frá þá séu Samtök upplýsingatæknifyrirtækja að vinna með stjórnvöldum að því að liðka fyrir komu erlends starfsfólks hingað til lands til að bregðast við aukinni eftirspurn. Þá sé lögð áhersla á að efla enn menntun og bæta starfsumhverfið. 

Há laun og meiri samkeppnishæfni

Þá segir Gunnar í ViðskiptaMogganum að íslensk tæknifyrirtæki leiti í auknum mæli eftir að útvista forritunarstörfum til útlanda m.a., en það hafi aðeins þyngst líka. Hann bendir á uppgang stórra íslenskra tæknifyrirtækja sem hafi mikla þörf fyrir starfsfólk í hugverkaiðnaði, félög eins og Sidekick Health og Controlant. Þau séu í miklum vexti og hafi ráðið til sín hundruð starfsmanna, bæði hér á landi og erlendis. Þá kemur fram í ViðskiptaMogganum að há laun séu í geiranum að sögn Gunnars og geti nýútskrifaðir forritarar fengið mjög góð kjör og valið úr störfum. Þegar blaðamaður spyr hvort skortur á starfsfólki sé farinn að há fyrirtækjunum segir Gunnar að lengi hafi verið talað um að íslenski hugverkaiðnaðurinn væri ekki nógu samkeppnishæfur en með ýmsum aðgerðum í samstarfi við stjórnvöld hafi samkeppnishæfnin aukist. Í fréttinni kemur fram að auk erlendu sérfræðinganna og menntunar nefni Gunnar endurgreiðslur úr þróunarsjóðum o.fl. „Þetta eru jákvæð skref. Við erum að nálgast það meira og meira að vera samkeppnishæf sem þjóð.“ 

ViðskiptaMogginn, 11. janúar 2023

VidskiptaMogginn-11-01-2023