Fréttasafn



18. feb. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Mikil uppsöfnuð þörf fyrir innviðauppbyggingu

Innviðafjárfesting á mörgum sviðum hefur verið of lítil undanfarin ár þrátt fyrir verulega aukningu fjármuna til þessa málaflokks síðustu ár. Að óbreyttu eru horfurnar víða ekki góðar og mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðauppbyggingu. Þá er ekki vanþörf á, að ítreka að verklegar framkvæmdir hins opinbera henta vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Við þurfum áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr þeirri kreppu sem við glímum nú við. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu á fundi þar sem kynntar voru niðurstöður nýrrar skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. 

Hér fyrir neðan fer ávarp Árna í heild sinni:

Það er óhætt að segja að fyrsta skýrsla Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem kom út síðla árs 2017 hafi haft mikil áhrif. Í fyrsta sinn var með heildstæðum hætti varpað ljósi á stöðu mismunandi flokka innviða á Íslandi og mat lagt á uppsafnaða viðhaldsþörf þeirra. Umræðan um innviði hefur tekið stakkaskiptum og þroskast á grundvelli þeirra sviðsmynda sem dregnar voru upp í skýrslunni. Í kjölfar útgáfunnar viðurkenndu margir að hafa hreinlega ekki gefið þessum málum raunverulegan gaum eða getað ímyndað sér þá stöðu sem þar birtist glöggt.

Og það er raunar ekkert undrunarefni, þrátt fyrir að við séum öll daglegir notendur innviða með einum eða öðrum hætti. Við erum orðin vön því að keyra eftir vegum landsins árið um kring, nýta okkur flugvellina, eiga gott aðgengi að rafmagni, vatni og hitaveitu og treystum því að séð verði um sorp og fráveitu. Við gerum þá kröfu að engir hlekkir í þessari mikilvægu keðju bresti, en þegar það gerist erum við rækilega minnt á það hversu háð við erum orðin innviðunum.

Saga innviða á Íslandi er þó ekki löng og ekki eru ýkja margar kynslóðir gengnar frá þeim tíma þegar samgöngur á landi voru afar erfiðar og torsóttar. Þannig komst fyrst á almennileg vegatenging milli Reykjavíkur og Akureyrar árið 1940 og enn liðu 34 ár þar til Skeiðarársandur með sín miklu fljót var brúaður á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og hringnum var lokað. Vatnsveita er rúmlega aldargömul og í lok þessa áratugar getum við fagnað aldarafmæli hitaveitu í Reykjavík. Rafmagn var af skornum skammti þegar litið er til landsins alls fram undir miðja síðustu öld þar til stórvirkjanir voru reistar hver af annarri. Meðfram þeirri byltingu þurfti einnig að reisa flutningskerfi raforku sem hefur ekki verið áhlaupaverk. Svona mætti lengi telja.

Þessum stóru sigrum í lífsbaráttu ungrar þjóðar megum við auðvitað ekki gleyma. Framfarir urðu á undraskömmum tíma sem gerðu landið okkar greiðfærara og byggilegra í krafti hugvits, dugnaðar, framtakssemi og verkviti þeirra sem að málum komu. Af því getum við öll verið stolt. Sú innviðauppbygging sem átti sér stað á liðinni öld gerði okkur einnig kleift að feta áður óþekktar slóðir í atvinnuuppbyggingu og skjóta þannig fleiri og styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf eins og dæmin sanna.

Íslenskur iðnaður hefur frá upphafi staðið að baki þessari uppbyggingu í góðu samstarfi við aðrar greinar atvinnulífsins og fullyrða má að án framtaks og nýsköpunar iðnaðar, meðal annars í uppbyggingu innviða, hefði íslenskt efnahagslíf ekki náð að vaxa og blómstra á jafn skömmum tíma. Hið sama mun gilda um uppbyggingu á innviðum til framtíðarvaxtar og nýrra stoða efnahagslífsins.

Líkja má innviðum landsins við samspil æðakerfis og líffæra mannslíkamans. Stórar og smáar æðar kerfisins flytja blóð um allan líkamann undir taktfastri stjórn dælustöðvarinnar, hjartans, svo allar frumur líkamans fái súrefni og næringarefni og losni við koltvíoxíð og önnur úrgangsefni.

Rétt eins og æðakerfið er tenging við öll líffæri okkar og tryggir lífsnauðsynlega virkni þeirra mynda innviðir landsins, misjafnir að umfangi, í sameiningu eina heild sem er undirstaða íslensks samfélags sem þjónar þörfum almennings og atvinnulífs. Sterkir innviðir, sem vel og reglulega er viðhaldið, skapa verðmæti og auka möguleika almennings til atvinnu og bættra lífsgæða. Ef við gætum ekki að okkur og leyfum þessum lífæðum okkar að drabbast niður, er illa komið fyrir okkur. Því miður áttum við okkur stundum ekki á slæmu ásigkomulagi fyrr en það er orðið um seinan.

Því er skýrslan sem við kynnum hér í dag svo mikilvæg, rétt eins og skýrslan sem við kynntum fyrir tæpum fjórum árum síðan. Hún er framlag okkar, sem að henni standa, inn í þá faglegu og upplýstu umræðu sem þarf að eiga sér stað um innviði íslenska hagkerfisins á hverjum tíma. Á grundvelli skýrslunnar er hægt að gera markvissari áætlanir og forgangsraða úrbótum og nýfjárfestingum.

Hvað það varðar, eru skilaboðin okkar skýr – með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar. Eins og farið verður yfir hér í dag, hefur innviðafjárfesting á mörgum sviðum verið of lítil undanfarin ár þrátt fyrir verulega aukningu fjármuna til þessa málaflokks síðustu ár. Að óbreyttu eru horfurnar víða ekki góðar og mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðauppbyggingu. Þá er ekki vanþörf á, að ítreka að verklegar framkvæmdir hins opinbera henta vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Við þurfum áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr þeirri kreppu sem við glímum nú við.

Ég færi Félagi ráðgjafaverkfræðinga og aðildarfyrirtækjum mínar bestu þakkir fyrir gott samstarf við gerð skýrslunnar. Þá færi ég sömuleiðis öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem unnu að skýrslunni þakkir fyrir vel unnin störf.

Ég hlakka til að hlýða á erindi dagsins og fylgja helstu niðurstöðum skýrslunnar úr hlaði. Við höfum allar forsendur til að gera betur í uppbyggingu innviða – oft var þörf, en nú er nauðsyn!