Fréttasafn



6. ágú. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikil vonbrigði að ESB áformi þvingunaraðgerðir

„Þetta er grafalvarleg staða og mikil vonbrigði að Evrópusambandið skuli ætla að láta verndarráðstafanir ná til íslenskra fyrirtækja. Það kemur okkur mjög á óvart að staðan skuli vera sú,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI meðal annars í frétt Morgunblaðsins. Hann bendir á að forstjóri Elkem á Íslandi hafi sagt að verði af umræddum ráðstöfunum muni þær vega mjög að samkeppnishæfni fyrirtækisins og kveðst vonast til þess að áform sambandsins muni taka einhverjum breytingum þannig að Ísland verði undanþegið. „Þetta er mjög óvenjulegt. Ég hef séð í fjölmiðlum að þessu hafi verið beitt áður m.a. af Íslandi, vegna fjármagnshafta, en það kemur mér mjög á óvart ef þessi starfsemi á Íslandi, þ.e. framleiðsla á kísiljárni, er slík ógn við efnahagslega framtíð Evrópu að það þurfi að beita íslensk fyrirtæki svona þvingunaraðgerðum.“

Ný staða að ESB grípi til verndarráðstafana sem dragi úr aðgengi að innri markaði

Sigurður segir jafnframt í Morgunblaðinu: „Það eru líka vonbrigði að Ísland, sem hefur verið í EES í meira en 30 ár og innleitt stóran hluta regluverks ESB hér á landi og íslensk fyrirtæki taka á sig margvíslegar skyldur í sínum rekstri með tilheyrandi kostnaði til þess að geta fengið aðgang að innri markaðinum, skuli sett í þessa stöðu. Það er algerlega ný staða að ESB skuli grípa til verndarráðstafana sem draga úr aðgengi okkar að innri markaðinum. Það kemur mjög á óvart og ég trúi ekki öðru en að ESB endurskoði áformin. Ég veit að íslensk stjórnvöld hafa talað ötullega fyrir hagsmunum Íslands gagnvart ESB, og upp á síðkastið sérstaklega út af breyttri stöðu í alþjóðaviðskiptum, tollastríði og öðru, en það eru mikil vonbrigði að ESB skuli ekki horfa til þeirra hagsmuna sem eru undir hjá okkur og einnig þess að við höfum verið traustur bandamaður í langan tíma.“

Tryggja þarf samkeppnishæfni og ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi

Sigurður segir jafnframt að á vettvangi ESB hafi staðið yfir rannsókn á markaðinum um skeið, vegna þess að framleiðendur kísiljárns t.d. í Kasakstan, Indlandi, Kína og víðar, hafi verið að selja mikið af kísiljárni inn á Evrópumarkað og stuðlað þannig að verðlækkun. Það hafi haft mikil áhrif á markaðinn. Hann kveðst vita að íslensk stjórnvöld hafi talað fyrir því að Ísland eigi að vera undanþegið þeim ráðstöfunum sem gripið verður til, hverjar sem þær verði. „En nú er búið að kynna þessi áform þar sem Ísland á að verða fyrir þessum ráðstöfunum, en ég veit að þetta hefur ekki verið ákveðið endanlega og einhver möguleiki er á að Ísland verði undanþegið. Ég veit að íslensk stjórnvöld eru að tala ötullega fyrir hagsmunum Íslands. Ég vona sannarlega að það beri árangur og tel að Ísland njóti velvilja hjá ESB. Íslensk stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja samkeppnishæfni iðnaðarins og atvinnulífsins heilt yfir með því að gæta hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum og með því að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi. Það verður að vera í algerum forgangi hjá þeim.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 28. júlí 2025.

Morgunbladid-28-07-2025