Fréttasafn



12. nóv. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Mikil vonbrigði að Ísland fái ekki undanþágu vegna kísilmálms

Það er alvarlegt mál og gífurlega mikil vonbrigði að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætli ekki að veita Íslandi undanþágu frá verndaraðgerðum gagnvart kísilmálmi segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í fréttum  RÚV. „Við vorum að gera ráð fyrir því og vorum bjartsýn á að það fengist ágætis lending í þessu. Því miður þá virðist svo ekki vera. Það sem við höfum auðvitað áhyggjur af er bara fordæmið sem þetta skapar til framtíðar þá gagnvart öðrum mörkuðum og framleiðsluvörum.“ Þá segir hún að það sé óboðlegt að íslenskir framleiðendur búi við sama íþyngjandi regluverk og evrópskir framleiðendur án þess að njóta ávinningsins sem fylgir aðgangi að innri markaði ESB. „Við höfum haft talsverðar áhyggjur af dvínandi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi og þetta er enn annað áfallið sem blasir núna við.“ Í fréttinni kemur fram að orkusækinn iðnaður hafi átt undir högg að sækja vegna hás framleiðslukostnaðar og hækkandi flutningskostnaðar raforku.

Skiptir öllu máli að prinsipp EES-samningsins séu virt

„Það sem skiptir mestu máli að átta sig á er að íslenskir framleiðendur eru að keppa, og evrópskir líka, við framleiðendur í ríkjum þar sem gerðar eru miklu minni kröfur til framleiðslunnar og framleiðslukostnaður er mun lægri. Það er mjög ójafn leikur. Þess vegna skiptir öllu máli að þessi prinsipp EES-samningsins séu virt,“ segir Sigríður í frétt RÚV. 

Stjórnvöld stundi áfram virka hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi

Sigríður segir jafnframt í fréttum RÚV að nú skipti sköpum að stjórnvöld stundi virka og þétta hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi næstu misseri eins og verið hefur. „Við ætlum enn að leyfa okkur að vona að það verði hægt að snúa þessari ákvörðun við. Það eru fundir í næstu viku á vettvangi EFTA. Ég mun sitja þá fundi og ætla að leggja mikla áherslu og þunga á þessi mál þar.“ 

RÚV, 12. nóvember 2025.