Mikil vonbrigði en baráttunni hvergi nærri lokið
Í máli Sigríðar Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í kvöldfréttum Sýnar kemur fram að það sé grafalvarleg staða uppi eftir að framkvæmdastjórn ESB hafi gefið til kynna að Íslandi verði ekki veitt undanþágu frá verndartollum á kísilmálmi. Niðurstaðan sé mikil vonbrigði en baráttunni sé hvergi nærri lokið. „Við vorum bjartsýn svona framan að eftir að fyrstu tilkynningarnar komu í sumar. Ég tek bara heils hugar undir með utanríkisráðherra að það er auðvitað algjörlega óboðleg staða fyrir íslenska framleiðendur að sitja að einhverju leyti undir mjög íþyngjandi regluverki, umhverfiskröfum og fleiru sem hækkar framleiðslukostnað íslenskra framleiðenda líkt og evrópskra en sitja svo ekki við sama borð þegar kemur að markaðsaðganginum. Við erum að innleiða íþyngjandi regluverk og regluverk sem hefur jákvæð áhrif á loftslagið og fleira í gegnum EES-samninginn frá Evrópusambandinu og ætlumst því til að hafa fullan aðgang að markaðnum.“
Stóra samhengið er fordæmið sem þetta gæti sett
Sigríður segir jafnframt í frétt Sýnar að útflutningur kísilframleiðslu sé um fjörutíu milljarða króna á góðu ári. „Þetta eru samt miklu víðtækari áhrif vegna þess að fordæmið sem þetta gæti sett inn í framtíðina gagnvart annarri íslenskri framleiðslu er stóra samhengið hérna. Þetta snýst ekki endilega um einstök fyrirtæki heldur stöðu Íslands á alþjóðamörkuðum.“ Hún nefnir einnig dvínandi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. „Það er hækkandi flutningskostnaður, raforka og fleira. PCC á Bakka er lokað tímabundið, við sjáum áfall hjá Norðuráli, þó það sé auðvitað allt önnur framleiðsla.“
Munum svo sannarlega berja í borðið
Þá segir Sigríður á Sýn að allt kapp sé nú lagt á það að snúa þessari ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB við í nánu samráði við íslensk stjórnvöld og að mikilvægir fundir séu fram undan í næstu viku. „Ég veit að það á mögulega að taka þessa ákvörðun á föstudaginn. Ef hún verður Íslandi í óhag þá munum við svo sannarlega berja í borðið á fundunum í næstu viku. Þar eru fulltrúar atvinnulífs, íslenskra stjórnvalda og utanríkisráðherra. Við þurfum í öllu falli að tryggja að prinsipp EES-samningsins séu virt inn í framtíðina og það yrði mikið högg ef þetta yrði raunin.“
Á vef Vísis er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.
Sýn/Vísir, 12. nóvember 2025.

Sunna Sæmundsdóttir ræddi við Sigríði Mogensen í kvöldfréttum Sýnar.

