Fréttasafn



14. jan. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Nýsköpun

Mikill áhugi á endurvinnslu og endurnýtingu á malbiki

Hátt í 60 manns sátu rafrænan fund Yngri ráðgjafa, YR, í morgun. Þetta var fjórði fundurinn í fundaröð YR um nýsköpun og nýjar lausnir í mannvirkjagerð. Björk Úlfarsdóttir, rannsóknarstjóri hjá Hlaðbæ Colas, og Harpa Þrastardóttir, umhverfis-, öryggis- og gæðastjóri hjá Hlaðbæ Colas, fjölluðu um endurvinnslu malbiks hjá fyrirtækinu. Á myndinni hér fyrir ofan er Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu og stjórnarmaður í YR, sem var fundarstjóri. 

Harpa sagði frá nokkrum aðferðum við að endurnýta malbik. Hún sagði m.a. frá kaldblönduðu malbiki sem er 100% endurunnið malbik blandað saman við bikþeytu og stundum örlítið af sementi. Vonir standa til að þetta verði meira nýtt í framtíðinni. Colas hefur verið að stækka til muna endurvinnslusvæði sitt og byggt skýli yfir endurunna malbikið svo hægt sé að nota lengur inn í veturinn. Stefnt er á að auka rannsóknir á malbiki mikið en ýmsar skorður eru til staðar. Til að mynda heimilar Vegagerðin aðeins 10% endurunnið malbik í nýtt slitlag og þetta viðmið er gjarnan notað í útboðsskilmálum. Rannsóknir sýna þó að hægt er að nýta það í mun meira mæli.

Björk sagði m.a. frá tilraunaverkefnum þar sem verið er að rannsaka kaldblandað malbik. Verið er að nýta kaldblandað malbik í auknum mæli. Hún sagði m.a. frá því að það tekur kaldblandað malbik tíma til að ná upp styrk. Þó er hægt að bæta við ákveðnum efnum til að flýta því ferli en það fer eftir þörfum hvers verkefnis. Best er að leggja út kaldblöndunina snemma sumars til að vatnsmagnið í blöndunni gufi upp. Hún sagði frá tilraunaverkefni með Eflu og Vegagerðinni sem verður gert sumarið 2021 þar sem lagður verður samanburðarkafli og í samráði við Vegagerðina gerðir þrír vegakaflar á umferðarþungan veg þar sem prófað verður mismunandi magn af endurunnu malbiki í slitlagsmalbik (10%, 20% og 30% endurunnið malbik). Fylgst verður með samanburði á þessum vegaköflum næstu árin.

Hlaðbær Colas eru bjartsýn fyrir framtíð endurvinnslu í vegagerð og hafa trú á að Ísland geti komist jafn langt og þau Evrópulönd sem lengst eru komin í endurvinnslu og endurnýtingu á malbiki. Vegagerðin og sveitarfélög þurfi hins vegar að taka af skarið og velja endurunnið. Miklar umræður mynduðust í kjölfar erindis Bjarkar og Hörpu.

Á myndinni eru Björk Úlfarsdóttir og Harpa Þrastardóttir sem eru hjá Hlaðbæ Colas og Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu og stjórnarmaður í YR. 

Fundur-14-01-2021-2-