Fréttasafn



20. maí 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Mikill áhugi á fræðslufundi um mannvirkjalög

Góð mæting var á rafrænan fræðslufund mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins um síðustu breytingar á lögum um mannvirki nr. 160/2010, undanfara lagabreytinganna og stöðu á innleiðingu en hátt í 40 manns sátu fundinn. Fundarstjóri var Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Á fundinum fór Sandra Hlíf Ocares, framkvæmdastjóri Byggingavettvangsins, yfir undanfara breytinganna, hvers vegna ákveðið var að breyta lögunum og hvernig vinnan fór fram. Haldinn var samráðsdagur helstu hagaðila og við lagasmíðina tekið mið af þeim áherslum sem þar komu fram.

Steinunn Pálmadóttir, lögfræðingur hjá SI, fór yfir helstu breytingar sem gerðar voru á lögunum. Hún koma m.a. inn á rafræn skil og undirritanir hönnunargagna, sem nú hafa öðlast lagastoð, og breytingar á ákvæðum um hönnunarstjóra. Hér er hægt að nálgast glærur Steinunnar.

Að lokum sagði Herdís Hallmarsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu forstjóra hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, frá stöðunni á innleiðingu þessara breytinga. Fór hún aðallega yfir yfirstandandi vinnu við breytingar á byggingarreglugerð, þ.m.t. útfærslu á ákvæðum um flokkun mannvirkja m.t.t. umfangs byggingareftirlits, og framkvæmdina í tengslum við virkniskoðanir gæðastjórnunarkerfa iðnmeistara, löggiltra hönnuða og byggingarstjóra.

Að erindum loknum var opnað fyrir spurningar og umræður.