Fréttasafn2. des. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Mannvirki Mannvirki – félag verktaka Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Mikill áhugi á fundi um orkuskipti í stærri vinnuvélum

Góð mæting var á fund SI og Mannvirkis - félags verktaka um orkuskipti í stærri ökutækjum og vinnuvélum sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins. Á fundinum var varpað ljósi á það framboð tækja sem í boði eru í dag og hvers markaðurinn megi vænta á næstu árum í þeim efnum. Þá var farið yfir áskoranir og lausnir verktaka þegar kemur að því að tryggja nýjum tækjum orku á framkvæmdastað auk þess sem verkkaupar veittu sýn á ágóða orkuskipta á slíkum tækjum í eigu verktaka við framkvæmdir á vegum verkkaupa. Fundarstjóri var Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Á fundinum kom meðal annars fram að ekki fari saman hljóð og mynd þegar dregið sé saman í fjárfestingu í innviðum á sama tíma og verkkaupar geri ríkari kröfur til orkuskipta í tækjabúnaðar. Kom fram að litið til næstu 5 ára verði aukið framboð af stærri og millistórum ökutækjum og vinnuvélum knúið annarri orku en olíu. Núna sé hægt að fá vöru- og sendibíla og smærri vinnuvélar búin öðru en jarðefnaeldsneyti (rafmagn/vetni) en tækin séu tvö- til þrefalt dýrari en sömu tæki knúin jarðefnaeldsneyti. Einnig kom fram að verktakar hafi áhyggjur af því að verkkaupar geri óhóflegar kröfur til orkuskipta sem þeim verði ekki gefinn kostur á að mæta sökum skorts á framboði. Á sama tíma sé hið opinbera að draga saman í fjárfestingum sínum til viðhalds og nýbyggingar innviða þar sem þekkt sé að mikil uppsöfnuð þörf er á viðhaldi og nýbyggingum. Þá kom fram á fundinum að auk þess séu fjármögnunarleiðir orðnar töluvert kostnaðarsamari nú en áður og orkuskipti þar af leiðandi nánast gerð ómöguleg fyrir verktakana.

Frummælendur á fundinum voru átta talsins; Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs mannvirkis og sjálfbærni hjá HMS og verkefnastjóri Byggjum grænni framtíð, fjallaði um vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð og beindi sjónum að aðgerð 2.3 um orkuskipti á vinnuvélum. Ólafur Árnason, sölustjóri Veltis l Volvo atvinnutæki og Eyjólfur Pétur Pálmason, forstjóri Vélfangs l JCB atvinnutæki, fóru yfir framboð atvinnutækja í dag og innlit í komandi ár. Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri VETNIS Iceland, fjallaði um kröfur og tæknilega útfærslu grænna atvinnutækja, Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, fjallaði um rafmagnsinnviði og áskoranir á framkvæmdastað. Ívar Kristinn Jasonarson, sérfræðingur loftslags og grænna lausna Landsvirkjunar, fjallaði um orkuskipti í framkvæmdum hjá Landsvirkjun. Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála, og Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri, bæði á skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg, fjölluðu um útboð Miðborgarleikskóla Reykjavíkurborgar. 

20221129_091146Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri sviðs mannvirkis og sjálfbærni hjá HMS og verkefnastjóri Byggjum grænni framtíð.

20221129_093000Ólafur Árnason, sölustjóri Veltis l Volvo atvinnutæki. 

20221129_094048Eyjólfur Pétur Pálmason, forstjóri Vélfangs.

20221129_101409_1669978616726Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri VETNIS Iceland. 

20221129_111456Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá Reykjavíkurborg.

Image00001_1669978722699Ívar Kristinn Jasonarson, sérfræðingur loftslags og grænna lausna Landsvirkjunar.

Image00002_1669978771149

20221129_115008