Fréttasafn18. ágú. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Mikill áhugi á kynningu Rannís og SI á stuðningi við nýsköpun

Fjölmennt var á fundi Rannís og Samtaka iðnaðarins sem haldinn var í gær í Húsi atvinnulífsins en hátt í 70 manns mættu á fundinn. Á fundinum kynntu Sigurður Björnsson, sviðsstjóri á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís, og Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, Tækniþróunarsjóð auk þess sem farið var yfir breytingar á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarverkefna í gegnum skattkerfið og skattívilnun vegna erlendra sérfræðinga. Fundarstjóri var Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá SI. 

Taeknithrounarsjodur-II-17.-agust-2017Á fundinum voru kynntir mismunandi styrktarflokkar sem hægt er að sækja um í Tækniþróunarsjóði. Skilafrestur umsókna er 15. september næstkomandi og 15. febrúar 2018 í fyrirtækjastyrki sem nefnast Sproti, Vöxtur og Sprettur. Sami skilafrestur er fyrir markaðsstyrki. Umsóknarfrestur fyrir styrki vegna hagnýtra rannsóknarverkefna er 25. janúar á næsta ári og umsóknarfrestur fyrir styrki fyrir flokk sem nefnist Fræ er til 2. apríl á næsta ári. Þá er alltaf opið fyrir umsóknir vegna einkaleyfisstyrkja.  

Í nýsköpunarlögunum frá júní 2016 vöru þökin á viðurkenndum kostnaði vegna rannsókna- og þróunarverkefna hækkuð úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna og 450 milljónir króna ef um samstarf við aðra rannsóknaraðila er að ræða. Á fundinum kom fram að stjórnvöld reikni með að þessi breyting skili um einum milljarði króna til nýsköpunarfyrirtækja á næsta ári.  

Á fundinum kom fram að ferlið til að sækja um skattívilnun fyrir erlendra sérfræðinga væri að komast í fastari skorður í höndum Rannís eftir að hafa verið í mótun fyrri hluta ársins, en árið í ár er fyrsta árið sem þessi ívilnun stendur til boða. Í umræðum kom fram að fyrirtækin vænta mikils af þessu sem tæki til að styrkja sig í alþjóðlegri samkeppni um besta fólkið í framtíðinni. Lykilskilyrði er að starfsmaðurinn búi yfir sérþekkingu eða reynslu sem ekki til staðar eða í litlum mæli hér á landi. Þá má starfsmaðurinn ekki hafa búið hér á landi síðastliðin fimm ár en hins vegar getur viðkomandi verið Íslendingur. 

Hér fyrir neðan má nálgast glærurnar frá fundinum:

Tækniþróunarsjóður. Taeknithrounarsjodur_haust2017 

Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga. Skattur_kynning_28mar2017

Endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Kynning-SI-agust-2017-HJ