Fréttasafn



10. okt. 2016 Almennar fréttir

Mikill áhugi á Microbit forritunartölvunni

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að um þriðjungur af skólum landsins hafi sótt um að fá Microbit forritunartölvu fyrir nemendur sína en í síðustu viku var sagt frá því að fulltrúar menntamála og atvinnulífs hafa sameinast um að forritunartölvan verði gefin öllum grunnskólabörnum í 6. og 7. bekk í þeim skólum sem hafa áhuga að taka við henni. Fjölmörg verkefni og fræðsluefni úr heimi forritunar verður einnig aðgengilegt og Ríkisútvarpið er með efni sem er aðgengilegt á KrakkaRÚV.  

Í fréttinni er haft eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að um sé að ræða átaksverkefni til þess að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim á einfaldan og skemmtilegan máta að forrita. ,,Það er óhætt að segja að verkefnið fari vel á stað þar sem formlegt bréf um þetta verkefni hefur ekki enn borist til skólanna og má því vænta að áhugi sé fyrir hendi hjá kennurum og starfsfólki grunnskólanna. Við upplifum sterkt áhugann og því höfum við miklar væntingar til þess að vel takist til,“ segir Almar í Morgunblaðinu. Einnig er haft eftir menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, að það hafi legið lengi fyrir að auka þyrfti áhersluna á að kenna börnunum að skrifa forrit og skrifa kóða og þetta sé leið sem hann telji að geti orðið mjög árangursrík. Hann segir að fyrstu viðbrögð við Microbit smátölvunum séu langt framar vonum. 

Nánar á mbl.is .