Mikill auður í vel menntuðum og faglegum iðnaðarmönnum
Undanfarin misseri hefur aukin áhersla verið lögð á að hvetja unga fólkið okkar til að huga að iðnnámi að loknum grunnskóla. Þetta átak hefur skilað miklum árangri enda eru tekjumöguleikarnir miklir og markaðurinn kallar eftir iðnmenntuðu fólki. Mikilvægt er að stjórnvöld beini meiri fjármunum í þá skóla sem bjóða upp á iðnnám enda er mikill auður í vel menntuðum og faglegum iðnaðarmönnum. Þetta kemur meðal annars fram í pistli Kristjáns Daníels Sigurbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka rafverktaka, SART, og viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI, í afmælisriti SART en samtökin fagna 70 ára afmæli núna í mars. Þá segir Kristján jafnframt í pistlinum að á sama tíma og keppst sé við að viðhalda gæðum og fagmennsku innan greinarinnar berist öðru hvoru fregnir af rafverktökum sem láti nafnið sitt falt þegar eftir því er leitað og þar eigi hann við fyrir þá sem eru réttindalausir. Hann bendir á að iðnmeistari sem skrifar upp á verk sé persónulega ábyrgur fyrir allri vinnu sem unnin er í hans nafni og hann spyr hvort leppurinn standi undir því ef á reyni.
Á forsíðu ritsins er birt fundargerð fyrsta fundar samtakanna sem þá hét Landsamband íslenskra rafvirkjameistara en stofnfundurinn var haldinn í húsi Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Í ritinu er að finna ávarp formanns SART, Hjörleifs Stefánssonar, ávarp formanns SI, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, auk fjölmarga greina og afmæliskveðja.
Hér er hægt að lesa 70 ára afmælisrit SART.