Fréttasafn



14. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Mikilvæg nýsköpun á mörkum sjávarútvegs og iðnaðar

Með nýsköpun á mörkum sjávarútvegs og iðnaðar verða til ný fyrirtæki, ný verðmæti sem síðan fara á alþjóðmarkaði og auka þá útflutningstekjur íslensks þjóðarbús. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í kvöldfréttum RÚV. Hún segir jafnframt að það verði ekki lögð nógu mikil áhersla á hversu mikilvægt þetta sé fyrir íslenskt hagkerfi til framtíðar. 

Í fréttinni kemur fram að á ráðstefnu um sjávarútveg og nýsköpun hafi megin stef verið að tækni og nýsköpun muni gjörbylta geiranum, margfalda arðsemi og fjölga störfum. Rætt er við Svein Agnarsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir að á næsta áratug væri hægt að auka verðmæti í 615 milljarða sem gæti þýtt aukningu upp á 80-90% í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum. „Við erum of tengd, of háð of fáum fiskstofnum eins og til dæmis þorskinum sem er dóminerandi hjá okkur og því er mikilvægt fyrir okkur að renna fleiri stoðum undir sjávarútveginn og nýsköpun tengda honum til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.“ Einnig er rætt við Guðmund Hafsteinsson, fyrrverandi formann stýrihóps um nýsköpun í sjávarútvegi, sem segir að eftir því sem tíminn líði þeim mun styttra sjái maður fram í tímann því tækniframfarirnar séu svo hraðar. „Fyrst og fremst mun það vera eitthvað tengt gervigreind og þess háttar tækni sem mun gjörbylta þessu öllu saman.“

Í fréttinni kemur fram að líftækni, matvælaþróun, tækjabúnaður og hugbúnaður tengdur sjávarafurðum hafi í raun skapað hér nýja útflutningsgrein sem eigi sér bjarta framtíð ef vel sé haldið á málum. 

RÚV, 11. júní 2021.