Fréttasafn30. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Mannvirki Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Mikilvægi öflugs iðnaðar í efnahagslegri endurreisn

Þegar ViðskiptaMogginn spyr um áramót Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um væntingar á nýju ári segir hann: 

Efnahagsleg endurreisn er framundan og er leið vaxtar eina raunhæfa leiðin. Það er aðdáunarvert hvernig starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækja landsins tókst að halda uppi starfsemi við ótrúlega erfiðar og krefjandi aðstæður á árinu og minnir okkur á mikilvægi öflugs iðnaðar á Íslandi.

Orkusækinn iðnaður hefur verið burðarstoð í ríflega hálfa öld. Eigi svo áfram að vera – og við því þarf skýr svör frá stjórnmálamönnum – þarf að ráðast í tímabærar umbætur á umgjörð raforkumála. Kaupendur raforku eru fjölbreyttari hópur en áður og verður regluverkið að taka mið af því. Verðlagning verður að vera samkeppnishæf og á það við um alla virðiskeðjuna.

Í menntamálum, sem einnig má kalla mannauðsmál, er brýnast að fjölga iðn- og tæknimenntuðum enda vantar þá á vinnumarkað. Einnig er nauðsynlegt að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga hingað til lands. Þessi mál eru komin vel af stað.

Innviðir landsins eru illa farnir eftir fjársvelti undanfarins áratugar og skuldinni hefur þar með verið skellt á framtíðarkynslóðir. Stórauka þarf framlög til viðhalds og uppbyggingar innviða og með því er eftirspurn aukin þegar þess er helst þörf.

Umgjörð nýsköpunar gjörbreyttist til hins betra árið 2020 og með því er fjárfest í eflingu hugverkaiðnaðar, fjórðu stoðarinnar. Með réttum ákvörðunum, með því að hlaupa hraðar og sækja tækifærin getur sú stoð hæglega orðið öflugasta útflutningsstoð þjóðarbúsins. Þetta á að vera helsta forgangsverkefni stjórnvalda.

Starfsumhverfi fyrirtækja er á margan hátt óskilvirkt og óhagkvæmt. Með frekari einföldun regluverks og umbótum þar að lútandi og með því að stilla skattheimtu og gjaldtöku í hóf má auka verðmætasköpun. Má þar nefna tryggingagjaldið og fasteignagjöld sveitarfélaga sem eru mjög íþyngjandi. Einfalda þarf regluverk byggingariðnaðar og verklegra framkvæmda. Þannig verður nauðsynleg uppbygging íbúða og innviða hagkvæmari. Hvetja þarf til fjárfestinga en ekki beita neikvæðum hvötum. Þetta á vel við í loftslagsmálum.

ViðskiptaMogginn, 30. desember 2020.