Fréttasafn



3. okt. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Mikilvægt að auka eftirlit með réttindalausri starfsemi

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá SI, var meðal þátttakenda á ráðstefnu ASÍ og SA um vinnumansal á Íslandi sem fór fram í Hörpu 26. september. Yfirskrift málstofunnar sem Jóhanna Klara tók þátt í var Ábyrgð fyrirtækja í virðiskeðjunni. Andri Reyr Haraldsson, formaður Félags íslenskra rafvirkja, og Gunnar S. Magnússon, yfirmaður sjálfbærni og loftlagsmála hjá Deloitte á Íslandi, voru einnig með erindi á málstofunni.  

Í erindi sínu lagði Jóhanna Klara áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki axli samfélagslega ábyrgð og að mikilvægt væri að tryggja aðfangakeðjur. Hún sagði að fyrirtæki standa frammi fyrir auknum kröfum um ábyrgð og gagnsæi, m.a. hvað varðar mannréttindi og vinnuöryggi. Ábyrgð fyrirtækja sé þó ekki bara skylda heldur bjóði hún upp á tækifæri til að styrkja ímynd, auka samkeppnishæfni og tryggja langtímaárangur. Fyrirtæki sem leggi áherslu á vinnu- og mannréttindi, ásamt því að tryggja öruggar vinnuaðstæður og rekstrarlegt heilbrigði, njóti aukins trausts frá viðskiptavinum og fjárfestum og muni því ekki aðeins efla samkeppnishæfni sína, heldur einnig tryggja stöðugleika og langtímaárangur.

Jóhanna Klara greindi einnig frá þáttum sem þurfi að bæta í starfsumhverfi fyrirtækja til að tryggja samkeppnishæfni. Tók hún m.a. fram að mikilvægt væri að auka eftirlit með réttindalausri starfsemi og að þörf væri á endurskoðun laga sem tækju á keðjuábyrgð en með því að endurskoða lög og reglur um opinber innkaup, geti stjórnvöld stuðlað að skilvirkari útboðsmarkaði, dregið úr kostnaði og tryggt að réttindi starfsmanna séu virt. Þá nefndi hún einnig mikilvægi þess að tryggja heimildir fyrir tímabundin búsetuúrræði fyrir starfsfólk til að bæta aðbúnað og öryggi starfsmanna.

Jafnframt sagði Jóhanna Klara að fyrirtæki sem fjárfesta í menntun og þjálfun starfsfólks munu enn fremur sjá ávinning af aukinni starfsánægju og lægri starfsmannaveltu. Skilvirk vinnustaðamenning sem byggi á virðingu og ábyrgð muni hjálpa til við að forðast fjárhagslegar og lagalegar áhættur.

Í kjölfar erinda frummælendanna var efnt til umræðna.

Hér er hægt að nálgast glærur Jóhönnu Klöru frá málstofunni.

JKS-a-mansalsradstefnu-sept-2024