Fréttasafn



28. okt. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Mikilvægt að draga úr skyldu fyrirtækja til að afla leyfis

Samtökin fagna því að teknir eru til endurskoðunar viðaukar við lög nr. 7/1998 og telja mikilvægt að draga úr skyldu fyrirtækja til að afla leyfis samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þetta kemur meðal annars fram í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu um frumvarp um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, mál nr. 243/2019. Í umsögninni segir jafnframt að þetta eigi sérstaklega við starfsemi sem falli undir núverandi viðauka IV og V við lögin þar sem almennt sé um að ræða starfsemi sem lítil áhætta fylgir. Einnig sé þessi starfsemi í mörgum tilvikum þegar bundin starfsleyfi samkvæmt öðrum lögum og það sé íþyngjandi að ríkisvaldið sé að krefjast þess að aflað sé starfsleyfa hjá mörgum stjórnvöldum.

Þá kemur fram í umsögninni að frekar ætti að fækka þessum leyfum en þar sem fleiri stjórnvöld þurfa að koma að geti þau einfaldlega miðlað upplýsingum sín á milli um viðkomandi starfsemi. Ávinningurinn sé augljós. Samtökin leyfi sér að benda á átak ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk. Þegar flækjustigið sé hugleitt bæti ekki úr að eftirlitsaðilar séu mjög margir og samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir séu það ellefu sjálfstæð eftirlitsstjórnvöld sem eigi að fylgja þeim eftir. Það blasi við að eftirlitinu sé misjafnlega fylgt eftir, kröfur geti verið misjafnar og það sem leyfist á einum stað kunni að vera bannað annars staðar. Að auki hafi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eftirlit með umfangsmikilli starfsemi sveitarfélaganna sjálfra sem sé óeðlilegt og bjóði upp á mismunun. Samtökin hafi lengi óskað þess að þetta kerfi verði endurskoðað og ítreki enn þá ósk.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.