Mikilvægt að færa iðnaðarlög til nútímans
Í gær, 17. desember, birtist grein í Morgunblaðinu sem ber heitið „Sérhagsmunasamtök sýna klærnar“ þar sem fjallað var um mögulega endurskoðun á iðnaðarlögunum og m.a. vísað til ummæla formanns Samtaka iðnaðarins, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, og framkvæmdastjóra, Almars Guðmundssonar.
Samtök iðnaðarins fagna og jafnframt leitast við að taka þátt í málefnalegri umræðu um viðfangsefni samtakanna og félagsmanna þess. Endurskoðun iðnlöggjafarinnar er mikið hagsmunamál félagsmanna Samtaka iðnaðarins og því mikilvægt að þeirri umræðu sé haldið á lofti. Slík umræða þarf að vera opin og heildarmat lagt á staðreyndir og framkomin ummæli.
Af því tilefni birtum við þau ummæli sem greinin vísar til, í heild sinni.
Viðskiptablaðið, 20. ágúst 2015
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að þegar hún kom í ráðuneytið hafi henni þótt skýrsla nefndarinnar og tillögur hennar að ýmsu leyti ganga of langt og að tillögurnar hafi þurft að vinna betur. Auk þess hafi þær mætt andstöðu frá bæði launþegum og atvinnurekendum. „Þegar um er að ræða löggjöf sem snertir með beinum hætti atvinnuréttindi og menntun fólks er nauðsynlegt að breytingar séu gerðar í samstarfi og sátt við þá sem þau varða. Við erum að leita leiða til þess að ná því nauðsynlega jafnvægi sem þarf til þess að færa löggjöfina meira í átt til nútímans og þess samfélags sem við búum í, án þess að kollvarpa starfsumhverfi þeirra sem starfa í iðngreinunum sem um ræðir,“ segir Ragnheiður Elín.
Ríkir almannahagsmunir undir
Hún segir að henni hafi strax orðið ljóst að nauðsynleg sátt myndi ekki nást um þær tillögur sem nefndin lagði til. „Breytingar sem þessar verða ekki gerðar nema í samráði við faggreinarnar sjálfar. Því hefur ráðuneytið rætt málið ítrekað á síðastliðnum árum við forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins og ekki fundið annað en að alvara væri þar að baki að vinna með okkur við þá endurskoðun. Meðal annars hefur verið rætt í því samhengi hvort hægt væri samhliðavinnu við breytingar á fyrirkomulagi iðnmenntunar, sem unnið er að í menntamálaráðuneytinu, að vinna að breytingum á iðnaðarlöggjöfinni,“ segir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Vonir standi til þess að hægt sé að finna farsæla lausn á málinu og ljúka því á kjörtímabilinu. Ragnheiður Elín segir iðnaðarlögum og löggiltum iðngreinum meðal annars vera ætlað að tryggja gæði, öryggi, almannaheilbrigði og neytendavernd. Ríkir almannahagsmunir séu fyrir því að tryggt sé að ákveðin verk séu unnin af fagmönnum. Þá sé mikilvægt að áfram verði í landinu nauðsynleg iðn- og fagþekking. Slík þekking gæti í einhverjum tilfellum glatast ef lögverndun yrði felld úr gildi.
Kerfi þurfa að geta breyst
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir samtökin hafa átt í góðum samskiptum við ráðuneytið vegna endurskoðunarinnar. Síðast hafi verið fundað með ráðherra og aðstoðarmönnum hennar í vor. Guðrún segir að samtökin leggi áherslu á að iðnaðarlöggjöfin sé í takt við tíðarandann. Hún bendir á að sumar lögverndaðar greinar séu ekki kenndar lengur. „Ég er svolítið talskona þess að ekkert kerfi kemur til að vera. Það er alveg sama hvort það sé iðnaðarlöggjöfin, kosningakerfið eða eitthvað annað, öll kerfi verða að vera síbreytileg og slá með hjarta samfélagsins,“ segir Guðrún. Þó að hún telji að fækka megi löggiltum greinum, þá segir hún að margar greinar séu þess eðlis að lögverndunina megi ekki fella úr gildi. „Ég held að það sé nauðsynlegt að hið opinbera rjúki ekki í einhverjar breytingar án góðs samráðs. Við verðum auðvitað að tala við þá sem eru að vinna við greinarnar.“
Ríkisútvarpið, 23. september 2015
Segir mikilvægt að færa iðnaðarlög til nútímans
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að mikilvægt sé að færa iðnaðarlög til nútímans. Það þurfi að gera á forsendum greinanna sjálfra. Í Iðnaðarráðuneytinu er áhugi á að endurskoða löggildingu starfsheita og lögverndun iðngreina. Nefnd um endurskoðun iðnaðarlaga skilaði af sér skýrslu í febrúar 2012. Þar er lögð til nokkuð umfangsmikil endurskoðun á lögverndun iðngreina og löggildingu starfsheita. Nefndin lagði meðal annars til að athugað verði hvaða iðngreinar hafi tekið slíkum breytingum að ekki teljist lengur málefnalegar forsendur fyrir löggildinu þeirra og aðeins þær greinar sem nauðsynlegt er að veita lögverndun á grundvelli ríkra almannahagsmuna verði framvegis felldar undir flokk löggildra iðngreina. 20 umsagnir um skýrsluna bárust frá ýmsum félögum sem flestar voru neikvæðar. Vinnan sem nú fer fram er í framhaldi af þessari skýrslu. Almar segir að Iðnaðarráðuneytið hafi áhuga á að endurskoða löggjöfina. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: ...Og í sjálfu sér tökum við undir það, það er mikilvægt að færa hana kannski til nútímans ef svo má að orði komast en það er mikilvægt að átta sig á því að aðstæður þessara fjölda greina sem þarna heyra undir, þær eru mjög mismunandi. Lögin séu reist á gömlum grunni og í millitíðinni hafa orðið til ýmis lög á sviði neytendalöggjafar sem þurfi að hafa í huga. Tímabært sé að endurskoða lögin en áður en til breytinga komi þurfi að eiga sér stað mikil greiningarvinna. Almar segir að málið sé mjög flókið. Almar Guðmundsson: Við viljum líka klárlega tryggja það að endurskoðunin eigi sér út frá forsendum greinanna sjálfra, út frá forsendum eða mögulegum áhrifum bæði á greinarnar, eins á neytendur og viðskiptavini því að í mjög mörgum tilvikum erum við að tefla um flókin mál og mál sem að varða, ja, lýðheilu, öryggi og ýmislegt fleira.