Fréttasafn



28. apr. 2017 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Mikilvægt að halda aftur að vexti ríkisútgjalda

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022, mál nr. 402, kemur fram ánægja með að umgjörð ríkisfjármála sé að færast í nýjan búning sem eykur aga og fyrirsjáanleika í ríkisfjármálum og ætti að styðja við stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma litið. En samtökin lýsa nokkrum áhyggjum af því með hvaða hætti fjármálastefna og fjármálaáætlun er notuð til að loka dyrum að mögulegum og jafnvel brýnum verkefnum. Þegar séu komin fram dæmi þar sem stjórnvöld neita með öllu allri málaleitan um möguleg fjárútlát á grundvelli fjármálaáætlunar. Nauðsynlegt sé að viss sveigjanleiki og möguleikar til forgangsröðunar útgjalda séu fyrir hendi án þess þó að grafa undan trúverðugleika fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Um almennar forsendur áætlunarinnar segja SI mikilvægt að halda aftur að vexti ríkisútgjalda og hagvaxtaskeiðið sé nýtt til að ná fram myndarlegum afgangi og svigrúm sé nýtt til að lækka skuldir eftir atvikum. Þetta hafi ekki tekist nægjanleg vel og sporin hræði. Þá er bent á að opinber útgjöld á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu séu þau hæstu á Norðurlöndum og að sú útgjaldaukning sem orðið hafi sé óviðunandi þegar útgjöld ríkisins hafi aukist um tæplega 50 milljarða króna eða 7,3% milli ára.

Í umsögninni kemur fram að SI fagni því að almennur virðisaukaskattur lækki og bilið milli þrepanna minnki, þannig breikki skattstofnar og skilvirkni skattkerfisins batni. En hins vegar sakni SI þess að í áætluninni sé ekki að finna nánari sýn á þróun VSK kerfisins og mögulegrar einföldunar á skattkerfinu og bent er á að skattheimta á Íslandi sé ennþá há í alþjóðlegu samhengi.

Um tryggingagjald segja SI að mikilvægt sé að lækkun tryggingagjalds komi til framkvæmda í upphafi 2018. Um fjárfestingar í innviðum lýsa SI áhyggjum af hversu lágt opinbert fjárfestingastig hefur verið um langt árabil þar sem afleiðingar séu að innviðir rýrni sem dregur úr samkeppnishæfni samfélagsins. Staðan sé því alls ekki nógu góð. SI fagna því að í áætluninni sé aukið nokkuð við fjármögnun í samgöngum frá því sem áður var en huga þurfi líka að ýmsum öðrum innviðum. 

Tiltekið er að SI í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga ætla að ráðast í gerð ítarlegrar skýrslu sem fjallar um stöðu innviða að norrænni fyrirmynd sem kallast State of the Nation og marki útgáfan grundvöll að umræðu á vettvangi stjórnmála og samfélagsins alls um stöðu innviða. 

Þá er bent á að þó miklar umbætur hafi átt sér stað á síðustu árum í hagskýrslugerð þá er áhyggjuefni að verulegar brotalamir eru á söfnun og birtingu gagna um menntamál og mannauð. Í því samhengi er bent á að nýjustu upplýsingar um fjölda nema og brautskráning eru frá skólaárinu 2012-2013.

Hvað rannsóknir og þróun varðar lýsa SI ánægju með heildaráherslur sem málaflokkurinn fær í áætluninni þó útfærslur séu óljósar. Bent er á að afnema þurfi hámark á endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar enda sé alþjóðleg samkeppni mikil um að laða til sín nýsköpunarstarfsemi. 

Í lokaorðum umsagnarinnar kemur fram að vægi hins opinbera þyrfti að minnka á þenslutímum en ekki megi missa sjónar á mikilvægi þess að treysta framleiðnivöxt til lengdar og samkeppnishæf starfsskilyrði.

Hér má nálgast umsögnina.