Mikilvægt að íslenskur iðnaður sé samkeppnishæfur
Nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Hannesson, er í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag en hann gengur til liðs við samtökin eftir tíu ár á fjármálamarkaði, nú síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Eftir tíu ár á fjármálamarkaði segir Sigurður endurreisn Íslands eftir hrun og vöxt síðustu ára standa upp úr. „Endurreisn Íslands stendur upp úr - það hvernig til tókst eftir hrunið og svo hagvöxturinn í kjölfarið. Ég sé ekki betur en að það muni áfram ganga vel á næstunni.“
Í viðtalinu er hann spurður um hvað hafi komið til að hann hafi valið sér annan starfsvettvang: „Mér fannst tímabært að breyta til eftir að hafa verið svona lengi í sama geiranum. Það er allt búið að ganga vel og ég er að mörgu leyti búinn að ná mínum persónulegu markmiðum. En nú langar mig að gera eitthvað allt annað. Þessi hurð opnaðist og ég greip tækifærið.“
Sigurður segir í viðtalinu að hann hlakki til að vinna með samtökunum til að efla iðnað og verðmætasköpun í landinu. „Mér líst mjög vel á Samtök iðnaðarins. Það eru 1.400 fyrirtæki þarna undir sem skapa heilmikil verðmæti og störf í samfélaginu og leggja sín lóð á vogarskálar lífisgæða í landinu. Samtökin spanna mjög breitt svið, allt frá mannvirkjagerð og framleiðslu til hugvits. Það eru spennandi tímar framundan, sérstaklega í hugviti þar sem fjórða iðnbyltingin og tæknivæðingin munu koma við sögu næsta áratuginn. Þá er mikilvægt að íslenskur iðnaður sé samkeppnishæfur,“ segir Sigurður í Viðskiptablaðinu.
Nánar á vef Viðskiptablaðsins.