Fréttasafn



8. mar. 2021 Almennar fréttir

Mikilvægt að létta af hindrunum

Mikilvægt er að létta á ýmsum hindrunum í starfsumhverfi íslensks atvinnulífs, svo því sé mögulegt að komast fljótt aftur af stað þegar kórónuveiran hefur verið lögð að velli. Þetta segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í Morgunblaðinu. Hann segir að til þess að skapa góð efnahagsleg lífsgæði þurfi að auka landsframleiðsluna um 545 milljarða króna á næstu fjórum árum. Auka þurfi gjaldeyristekjur um 300 milljarða króna yfir tímabilið og fjölga störfum um 29 þúsund til að ná atvinnuleysinu niður og mæta fólksfjölgun, líkt og kemur fram í ályktun Iðnþings

Hindranir og fjötrar eru mannanna verk sem hægt er að breyta

Árni segir að hindranir og fjötrar hafi því miður allt of lengi tilheyrt starfsumhverfi íslensks atvinnulífs. „Okkur hefur gengið illa að komast úr slíku hugarfari við setningu laga og reglugerða eða álagningu óhóflegra skatta og gjalda, þrátt fyrir að engin augljós nauðsyn kalli á hindranir eða fjötra. Nú þegar margir eru án atvinnu og verðmætasköpun í lágmarki er mikið í húfi. Allt eru þetta mannanna verk sem hægt er að breyta, einkum nú þegar aðstæður krefjast þess.“ 

Mörg flækjustig í regluverki

Árni segir að afgreiðsla erinda í bygginga- og skipulagsmálum taki oft langan tíma og hið opinbera eigi oft á tíðum erfitt með að vinna saman þvert á stofnanir og ráðuneyti. „Flækjustig í regluverki eru mörg og stafræn afgreiðsla á ýmsum sviðum er ekki komin í gagnið sem vera skyldi, þótt boltinn sé farinn að rúlla annars staðar.“ 

Tækifæri í umhverfisvænum lausnum

Í viðtalinu kemur fram að Árni leggi áherslu á umhverfisvænar lausnir eins og fram komi í ályktun Iðnþings. „Við höfum mörg orkutengd tækifæri, meðal annars á grundvelli nýrrar orkustefnu stjórnvalda til 2050, að því gefnu að við getum tryggt samkeppnishæft starfsumhverfi hér á landi. Atvinnulífið er best til þess fallið að stuðla að breytingum á framleiðsluferlum, starfsemi sinni eða öðrum þáttum til að halda áhrifum á umhverfið í lágmarki. Þessi aukna áhersla hefur, og mun áfram leiða til þróunar í grænni tækni, umhverfisvænni framleiðsluferlum, rafrænum lausnum og orkuskiptum í samgöngum.“ 

Morgunblaðið, 6. mars 2021.