Mikilvægt að missa ekki sjónar á markmiðum í loftslagsmálum
Á tímum óvissu í alþjóðamálum, aukins þrýstings á orkumarkaði og hnattrænna áskorana er mikilvægt að missa ekki sjónar á markmiðum okkar í loftslagsmálum. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í ávarpi sínu á ársfundi Grænvangs sem fór fram í Grósku í vikunni. Hann sagði að það byggi kraftur í íslensku atvinnulífi – fyrirtækjum sem skapi verðmæti, störf og lausnir og að það væru fjölmörg fyrirtæki sem þegar leiði vagninn í orkuskiptum og grænum lausnum. Þekking og reynsla Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku væri útflutningsvara í sjálfu sér og í reynd okkar stærsta framlag til loftslagsmála á heimsvísu.
Sigurður sagði að við hefðum mikil tækifæri til að ná árangri. „Við erum með forskot í nýtingu auðlinda. Við höfum reynslu af orkuskiptum. Við erum á þröskuldi grænnar iðnbyltingar sem mun skapa ný verðmæt störf. Við höfum byggt upp hugvit, til dæmis með sjálfbærri nýtingu jarðvarma, sem hefur nýst um allan heim.“
Farsælar ákvarðanir á sviði loftslagsmála og grænna lausna
Þá kom fram í ávarpi Sigurðar að þegar Ísland hafi hafið orkuskipti á síðustu öld, frá olíu og innfluttri orku yfir í endurnýjanlega orku, hafi alls ekki verið fyrirséð hvernig til tækist. „Það þurfti hugrekki til að stíga það skref, fjárfestingar sem margir efuðust um, og öflugt samstarf margra aðila, ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. En sú vegferð skilaði okkur forskoti sem við njótum í dag: hrein orka, betra umhverfi og einstök reynsla og þekking. Það er mér til efs að einhver horfi til baka og segi að þetta hafi verið mistök, þvert á móti þá lítum við á þetta sem eina af farsælustu ákvörðun þjóðarinnar á síðustu öld.“
Hann sagði að það væru fleiri dæmi um farsælar ákvarðanir á sviði loftslagsmála og grænna lausna, þegar á sjöunda áratug síðustu aldar hafi verið teknar ákvarðanir um uppbyggingu orkusækins iðnaðar, með stofnun Landsvirkjunar 1965, byggingu Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík sem hafi hafið framleiðslu 1969 og markað upphaf álframleiðslu á Íslandi. „Þetta var í raun iðnaðarstefna eða atvinnustefna í verki þótt hún hafi ekki verið beint kölluð það á sínum tíma.“
Fagnaðarefni að unnið er að mótun atvinnustefnu Íslands
Sigurður sagði það vera fagnaðarefni að stjórnvöld vinni nú að mótun atvinnustefnu Íslands, vaxtarplans til ársins 2035, í samráði við atvinnulífið og vakti athygli fundargesta á því sem segir í áformaskjali ríkisstjórnarinnar. Hann dró fram að þar væri áhersla á hvata til nýsköpunar, árangur í loftslagsmálum og aukið aðgengi að endurnýjanlegri orku. „Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur öll hjá Grænvangi að sjá teikn þess efnis að stjórnvöld og atvinnulífið stilli nú saman strengi og skapi forsendur fyrir áframhaldandi sókn til vaxtar, sem byggir á því sem við getum svo vel gert. Græn iðnbylting er atvinnustefna sem stjórnvöld hafa mótað og unnið eftir í mörg ár, hérlendis og erlendis.“
Byggjum brýr á milli ólíkra hagsmuna
Í ávarpinu kom fram hjá Sigurði mikilvægi samstarfs og sagði hann mikinn áhuga á að nýta Grænvang fyrir virkt samtal milli stjórnvalda og atvinnulífs til stefnumörkunar og leiða til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og grænum lausnum. „Sagan sýnir að við getum náð ótrúlegum árangri þegar atvinnulíf og stjórnvöld vinna saman – þegar við brjótum niður múra og byggjum brýr á milli ólíkra hagsmuna.“ Hann nefndi einnig að við getum líka lært af öðrum í gegnum alþjóðlegt samstarf og greindi frá samstarf við „State of Green“ í Danmörku sem væru systursamtök Grænvangs. „Við viljum byggja á styrkleikum beggja landa og efla samstarfið í kynningu á íslenskum og dönskum grænum lausnum á alþjóðavettvangi, með þekkingarmiðlun milli landanna og með því að vinna saman að auknu samstarfi milli Norðurlandanna.“
Getum náð markverðum árangri ef við vinnum saman
Í niðurlagi ávarps síns sagði Sigurður að framtíðin væri björt fyrir Grænvang og að allir sem komi að starfi hans ættu þakkir skildar. „Ég vil nota tækifærið og þakka stjórn, aðilum í baklandi, samstarfsaðilum okkar og starfsfólki Grænvangs fyrir frábært samstarf. Við horfum með tilhlökkun til áframhaldandi samstarfs og þeirra spennandi tækifæra sem framundan eru í sameiginlegri vegferð okkar að grænni framtíð. Ef við höfum hugrekki, ef við nýtum styrkleika okkar og síðast en ekki síst, ef við vinnum saman, getum við náð markverðum árangri í loftslagsmálum og grænum lausnum fyrir öflugra Ísland.“
Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir.
Myndir/Sigurjón Sigurjónsson
Á ársfundinum fór fram samtal Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI og formanns Grænvangs, og Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og verndara Grænvangs.