Fréttasafn



26. ágú. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Mikilvægt að sprotafyrirtæki geti vaxið og dafnað hér á landi

„Til að byrja með er fyrirtæki aðeins hugmynd og þess vegna er orðið sproti svo fallegt; þetta er fræ sem þarf að vökva svo það fái vaxið.“ Þetta segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og þar með viðskiptastjóri Samtaka sprotafyrirtækja, í sérblaði Fréttablaðsins um nýsköpun. „Þegar Samtök sprotafyrirtækja voru stofnuð árið 2004 var lítill stuðningur við frumkvöðla og fyrirtæki á fyrstu stigum. Tilgangur samtakanna hefur frá upphafi verið að höfða til stjórnvalda og almennings að tryggja að hér sé umhverfi sem styður við vöxt sprotafyrirtækja og vekja athygli á því hversu mikilvægt sé að sprotafyrirtæki geti vaxið og dafnað hér á landi, og hvað þurfi til svo það sé hægt. Í samtökunum er mikil gróska og grasrótarstemning, og hópurinn samanstendur af skemmtilegu og öflugu fólki því það eru magnaðir einstaklingar sem ákveða að stofna fyrirtæki.“ 

Skattfrádráttur til sprotafyrirtækja verði ótímabundinn

Í viðtalinu kemur fram að það sé margt á verkefnalista Samtaka sprotafyrirtækja. „Eitt stærsta hagsmunamálið hefur verið skattfrádráttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar; að sprotafyrirtæki fái endurgreiddan hluta af skatti sem þau greiða af kostnaði sem fer í rannsóknir og þróun. Það er grundvöllur nýsköpunar því fyrirtæki í nýsköpun hala ekki inn tekjur fyrstu árin þegar þau eru í þróun lausna sem fara á markað síðar. Þá þurfa þau nauðsynlega á stuðningi frá ríkinu að halda, til að geta skapað og komið hugmyndum sínum í framkvæmd. Við tölum um þennan skattfrádrátt sem fjárfestingu því það er jú það sem þetta er; fjárfesting ríkisins í störfum framtíðar, hagvexti og lausnum sem koma til með að leysa okkar stærstu áskoranir, loftslagsvána, öldrun þjóðar og fleira. Almennt liggur bann EES við að ríki styðji við fyrirtæki í rekstri, en veitt er sérstök undanþága þegar um nýsköpunarfyrirtæki er að ræða, enda metur EES nýsköpun eitt af grundvallaratriðum í uppbyggingu samfélaga þegar kemur að störfum, hagvexti og samfélagslegum áskorunum.“ 

Þá kemur fram að tímabundinn skattfrádráttur til tveggja ára hafi þegar áunnist fyrir sprotafyrirtæki, en Nanna Elísa segir mestu skipta að hann verði ótímabundinn. „Annað skapar óvissu gagnvart fjárfestum sem í auknum mæli gera kröfu um að sprotafyrirtæki séu staðsett í ríkjum með öflugt stuðningsumhverfi. Við þurfum því að geta sent út boð um að Ísland ætli að vera nýsköpunarland og festa það í sessi.“

Sprotafyrirtæki í líf- og djúptækni þurfa aðstöðu og tækjabúnað

Einnig kemur fram að annað hagsmunamál SSP sé kortlagning á aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í líf- og djúptækni. „Slík fyrirtæki þurfa vottaðar rannsóknastofur og oft þróaðri aðstöðu og aðgang að tólum og tækjum. Fyrirtæki eins og Össur, Marel og Controlant eru dæmi um sprotafyrirtæki sem þróuðu tækjabúnað og til þess þarf góða aðstöðu sem mætir þörfum til þróunar og prófana. Þess háttar aðstaða er af skornum skammti hér á landi og við köllum eftir að stjórnvöld komi á fót aðstöðu og tækjabúnaði til að mæta þessari þörf.“

Sprotar sem verða risavaxin alþjóðleg fyrirtæki

Í viðtalinu segir að Íslendingar standi framarlega í nýsköpun og megi nefna Marel, Össur og CCP sem byrjuðu sem sprotafyrirtæki en séu nú orðin risavaxin alþjóðleg fyrirtæki. „Það er til mikils að vinna að styðja við íslensk sprotafyrirtæki og við erum með mörg mjög spennandi fyrirtæki í dag, eins og Alor með sjálf bærar rafhlöður, Ankeri sem þróar hugbúnaðarlausnir til að tryggja orkunýtni flotans og GeoSilica sem vinnur fæðubótarefni úr kísli. Sprotafyrirtæki eru jafnframt grunnur að sívaxandi hugverkaiðnaði Íslendinga, hann leggur til 16 prósent af útflutningstekjum þjóðarbúsins og þar gegna sprotafyrirtæki stóru hlutverki.“

Jafnframt kemur fram að flóra sprotafyrirtækja sé fjölbreytt í SSP og segir Nanna mikilvægt að ólíkir aðilar komi að borðinu til að deila hindrunum og tækifærum. „SSP eru langöflugustu samtök sprota á Íslandi og mikilvæg hagsmunasamtök sem miðla áhersluatriðunum áfram. Hópurinn sækir styrk sinn í fjölbreytileikann og þess vegna reynum við að hvetja fleiri og fleiri sprotafyrirtæki til að ganga í félagsskapinn.“ 

Ríki keppast við að lokka sprotafyrirtækin til sín

Þá segir Nanna í viðtalinu að ríki heims í dag keppist við að vera með sem hagfelldast hagkerfi til að lokka sprotafyrirtækin til sín. „Allir vilja störf í sitt hagkerfi, og þetta eru góð og skapandi störf sem krefjast mikillar menntunar við rannsóknir og þróun, og skapa auðvitað tekjur fyrir þjóðarbúið. Því leggjum við ríka áherslu á að Ísland verði ekki eftirbátur annarra landa í þeim efnum.“ Einnig segir að SI og SSP eigi í góðu samstarfi við Tækniþróunarsjóð. „Við höfum lagt okkar á vogarskálarnar til að ná fram auknum fjármunum til styrkja úr sjóðnum, sem og aukna skilvirkni í umsóknarferli og útdeilingu styrkja. Þá höfum við lagt ríka áherslu á kaupréttarkerfi svo sprotafyrirtæki geti umbunað starfsfólki sínu með kaupréttum.“ 

Öll kyn hafi jafn mikinn aðgang að fjármagni

Þá segir að undanförnu hafi jafnrétti í fjármögnun fyrirtækja verið mikið í umræðunni. „Tölfræðin sýnir að konur og kvenkynsleidd teymi fá ekki jafn mikið fjármagn og karlkyns leidd teymi. Við vinnum nú með hagsmunaaðilum til að leita ástæðu þessa og til að vinna bót á þessu, þegar við vitum hvert vandamálið er. Til að nýsköpun á Íslandi nái vaxtarmöguleikum sínum er áríðandi að öll kyn hafi jafn mikinn aðgang að fjármagni.“ 

Hér er hægt að nálgast sérblaðið Nýsköpun sem Fréttablaðið gefur út.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 26. ágúst 2022. 

Mynd: Fréttablaðið/Eyþór

Frettabladid-29-08-2022