Fréttasafn6. feb. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Mikilvægt að standa vel að gerð kostnaðaráætlana

Rætt er við Arnar Kára Hallgrímsson, formann Yngri ráðgjafa (YR) sem er deild innan Félags ráðgjafarverkfræðinga sem er aðili að SI, í fylgiblaði Fréttablaðsins um byggingariðnaðinn. Arnar Kári sem er byggingarverkfræðingur hjá verkfræðistofunni EFLU segir meðal annars frá því að YR séu að skipuleggja viðburð sem haldinn verður í Húsi atvinnulífsins um miðjan mars næstkomandi þar sem fjallað verður um kostnaðaráætlanir verkefna í tengslum við útboð sem ráðgjafar vinna við og er markmiðið að fá aðila frá ráðgjafarfyrirtækjunum sem hafa reynslu af gerð og meðhöndlun kostnaðaráætlana til að koma og ræða málin. „Kostnaðar áætlanir framkvæmdaverkefna hafa oft verið til umræðu í samfélaginu en við höfum orðið sérstaklega vör við þá umræðu síðastliðið ár. Kostnaður er sá hluti verkefna sem flestir geta haft skoðun á og því er mikilvægt að standa vel að gerð kostnaðaráætlana og að þær séu um leið unnar og túlkaðar á ábyrgan hátt.“ 

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Arnar Kára með kynningu fyrir nemendur í Háskóla Íslands.

Mismunandi skilningur á kostnaðaráætlun

Í viðtalinu segir Arnar Kári umræðuna í samfélaginu síðastliðið ár hafa verið mikla og einkennst af töluverðri gagnrýni. „Það ríkir mismunandi skilningur aðila á hvað kostnaðaráætlun er, hvað mismunandi þættir hennar þýða og hvernig á að túlka hana og forsendur hennar. Það er þess vegna sem við stöndum að þessum viðburði og tökum þetta málefni fyrir, því það rímar vel við hlutverk félagsins að huga að framtíð ráðgjafarmarkaðarins. Meðal þeirra spurninga sem varpað verður fram á viðburðinum eru: Hvað er kostnaðaráætlun? Hvaða ábyrgð fylgir því að gera kostnaðaráætlun? Hvernig eru kostnaðaráætlanir túlkaðar? og Hvað getum við gert betur?.“ 

Tækifæri yngri ráðgjafarverkfræðinga til að hafa áhrif 

Þá segir í blaðinu að í YR séu ráðgjafarverkfræðingar 40 ára og yngri og að helsta hlutverk hópsins sé að gefa yngri ráðgjöfum tækifæri til að hafa áhrif á þróun framtíðar ráðgjafarmarkaðarins í íslensku og alþjóðlegu umhverfi og um leið hafa áhrif á starfsumhverfi sitt. Arnar Kári segir líka frá því að stefnt sé að heimsóknum á framkvæmdastaði og til ýmissa fyrirtækja. „Hluti af starfi YR er að vinna með systurfélögum okkar á Norðurlöndunum og erum við í samstarfi við þau að búa til heimaverkefni fyrir nemendur á framhaldsskólastigi sem tengjast raunverulegum verkefnum ráðgjafarfyrirtækjanna.“ Einnig kemur fram að Félag ráðgjafarverkfræðinga muni hýsa ráðstefnuna Rinord í ár sem er ráðstefna fyrir öll félög ráðgjafarverkfræðinga á Norðurlöndunum þar sem þau hittast og ræða helstu áskoranirnar á ráðgjafarmarkaðnum og munu YR taka þátt í þeirri ráðstefnu.

Fréttablaðið, 4. febrúar 2019.