Mikilvægt að vera í virku samtali við nágranna og vinaþjóðir
„Það sem skiptir máli er að við tryggjum hagsmuni Íslands og íslensks útflutnings, að við séum þá hluti af Evrópusambandinu í þeim skilningi að við lendum ekki á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Stöðvar 2 um mögulegt tollastríð milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.
Virkt samtal við nágranna og vinaþjóðir
Í fréttinni kemur fram að útflutningshagsmunir til Evrópu séu stærri en til Bandaríkjanna, heildarútflutningur til ESB séu tæplega 400 milljarðar á ári en um 40 milljarðar til Bandaríkjanna. „Það skiptir máli að við séum í virku samtali við okkar nágranna og vinaþjóðir sem eiga sambærilegra hagsmuna að gæta og Noregur er besta dæmið um slíkt ríki.“
Versta sviðsmyndin að lenda í tollahækkunum á báða bóga
Sigríður segir að tryggja þurfi hagsmuni Íslands í samhengi við EES. „Slíkt samtal sé þegar hafið bæði á vettvangi atvinnulífs og utanríkisstjórnmála. Versta sviðsmyndin er auðvitað sú að við lendum í tollahækkunum á báða bóga, ég held að það sé óhugsandi, það er mjög ólíklegt sviðsmynd. Ef við höldum rétt á spilunum þá mun hún ekki verða að veruleika.“
Vera taktísk en ekki hafa okkur mikið í frammi
Þá kemur fram í frétt Stöðvar 2 að á næstu vikum þurfi að fylgjast vel með fyrirætlunum Trumps og mótvægisaðgerðum ESB. „Við skulum ekki hafa okkur of mikið í frammi, við þurfum að vera mjög taktísk en við þurfum að passa upp á okkar hagsmuni beggja megin borðsins.“
Hér er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.