Fréttasafn3. júl. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Mannvirki – félag verktaka Starfsumhverfi

Miklar kostnaðarhækkanir draga úr hvata til að byggja íbúðir

„Þegar rammasamningurinn lá fyrir sýndi byggingariðnaður samfélagsábyrgð og hóf vinnu við að fjölga byggingarverkefnum. Frá þeim tíma hafa stýrivextir hækkað um fjögur prósentustig í 8,75 prósent, byggingarvísitala hefur hækkað um liðlega sex prósent og sölutími íbúða lengst. Til að strá salti í sárin ákvað ríkistjórnin með einungis tveggja mánaða fyrirvara – sem er með ólíkindum – að lækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts úr 60 prósentum í 35 prósent af vinnu iðnaðarmanna við byggingu íbúðarhúsnæðis. Þessir þættir gera það að verkum að byggingarkostnaður 75 fermetra íbúðar hefur hækkað um 7,5 milljónir króna eða um 15 prósent,“ segir Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks og formaður Mannvirkjaráðs SI, í viðtali Helga Vífils Júlíussonar í Innherja á Vísi. Gylfi segir að  þessar kostnaðarhækkanir draga verulega úr hvata til að byggja íbúðir. „Eftir þessar miklu hækkanir ganga mörg byggingarverkefni ekki upp fjárhagslega.“ 

Þarna er vísað í rammasamning hins opinbera um 35 þúsund íbúðir þar sem hafi átt að byggja fjögur þúsund íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin. Í ljósi mikillar fólksfjölgunar telur Gylfi að þörfin sé enn meiri en áður hafi verið reiknað með. „Það er ljóst að við munum ekki ná markmiðinu sem sett var fyrir ári. Það hafa einungis verið teknar í notkun um 1.300 til 1.700 íbúðir frá því að samkomulagið var gert,“ segir hann og nefnir að það leiði til þess að húsnæðiseklan verði enn meiri.

Á vef Innherja er hægt að lesa viðtalið í heild sinni.

Innherji, 1. júlí 2023.