Fréttasafn



27. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Miklar verðhækkanir koma niður á byggingargeiranum

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Innherja á Vísi um verðhækkanir á byggingamarkaði en fram kemur í fréttinni að vísitalan fyrir innflutt byggingarefni hækkaði um 5,5% í apríl og ekki hafi sést viðlíka hækkun á verði innflutts byggingarefnis frá því að Hagstofan byrjaði að birta sundurliðun byggingarvísitölunnar í byrjun árs 2010. Ingólfur segir þetta talsverða hækkun milli mánaða og endurspegli að miklar hækkanir á hrávörumörkuðum að undanförnu séu að koma niður á byggingargeiranum. 

Miklar verðhækkanir geta dregið úr vilja til að ráðast í ný byggingaverkefni

Í fréttinni kemur fram að samkvæmt vísitölunni sem sé undirliður byggingarvísitölu Hagstofu Íslands hafi verð innflutts byggingarefnis hækkað um 26% frá mars 2020 en á sama tímabili hafi byggingarvísitalan í heild sinni hækkað um rúm 13%. Ingólfur segir að verktakar séu oft ekki í stöðu til að velta hækkunum aðfangaverðs út í verðlagið. „Stór hluti verkefna í byggingar- og mannvirkjagerð er þannig að samið er um verðið fyrir fram og því mun svona mikil hækkun á verði aðfanga hafa umtalsverð áhrif á arðsemi verkefnanna. Hún getur jafnvel snúið henni við.“  Hann segir að miklar hækkanir geti þannig dregið úr vilja til að ráðast í ný verkefni en það komi sér illa þegar mikill skortur er á íbúðarhúsnæði. „Einnig kemur þetta niður á öðrum verkefnum s.s. á fjárfestingu í innviðum sem er einnig slæmt þar sem á því sviði er mikil uppsöfnuð þörf fyrir framkvæmdir. Þessi mikla verðhækkun hrávöru kemur sér því mjög illa fyrir byggingarmarkaðinn og hagkerfið í heild.“

Hækkanir meiri en byggingarvísitalan gefur til kynna

Í fréttinni er einnig rætt við Gylfa Gíslason, framkvæmdastjóra og einn af eigendum JÁVERK, sem kveðst efins um að byggingarvísitalan endurspegli raunverulegar breytingar á byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Að hans mati eru þær miklu meiri en vísitalan gefur til kynna.

Vísir/Innherji, 27. apríl 2022.