Fréttasafn



4. feb. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Milljarða króna tekjur borgarinnar vegna innviðagjalda

Verktakar veigra sér við að leita réttar síns gagnvart hugsanlega ólögmætum innviðagjöldum af ótta við afleiðingar sem það kunni að hafa á framtíðarverkefni þeirra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag þar sem rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI. Hann segir samtökin vera að skoða leiðir til að gera eitthvað í málunum. „Okkar félagsmenn kannast við að borgin sé í yfirburðastöðu við þessa samningagerð. Við höfum heyrt dæmi um þetta og hérna er um að ræða býsna háar fjárhæðir í gjaldtökunni. Fjárhæðir sem kannski hlaupa á hundruðum milljóna fyrir hvert verkefni. Án þess að vera með heildaryfirsýn þá sýnist mér að tekjur Reykjavíkurborgar á síðustu árum hlaupi á milljörðum króna. Það er stærðargráðan.“ Sigurður segir að þótt borgin tali um samninga milli aðila í þessum efnum þá sé borgin í algjörri yfirburðastöðu.

Þegar Sigurður er spurður hvort standi til að láta reyna á lögmæti þessara innviðagjalda fyrir dómi svarar hann að hann viti ekki til þess að slíkt standi til en að margir hafi áhuga á því. „En veigra sér við því vegna þess að, aftur, sveitarfélagið er í yfirburðastöðu. Þannig að menn vilja kannski frekar hafa gott veður varðandi verkefni til framtíðar.“ Hann segir að samtökin séu að skoða ýmsar leiðir. „Þessa dagana erum við að afla frekari upplýsinga og dæma um þessi mál. Við höfum áhuga á því að fara lengra með það. Við erum að skoða hvaða farvegur það gæti verið.“ 

Í fréttinni er vitnað til orða Friðjóns Friðjónssonar í Morgunútvarpi Rásar 2 á föstudaginn síðasta þar sem hann segist þekkja aðila sem standi í byggingarverkefnum og segði sögur af hótunum undir rós um að menn myndu ekki fá deiliskipulag ef þeir greiddu ekki þessi gjöld.

Fréttablaðið / Frettabladid.is / Vísir, 4. febrúar 2019.