Milljón fyrir bestu hugmyndina í Borgarhakki
Reykjavíkurborg og Icelandic Startups standa fyrir Borgarhakki þar sem fólki býðst að taka þátt í hakkaþoni þar sem tekist verður á við krefjandi áskoranir og leitað skapandi lausna fyrir framtíðarborgina Reykjavík undir leiðsögn sérfræðinga. Borgarhakkið fer fram í Ráðhúsinu föstudaginn 27. apríl kl. 16-21 og laugardaginn 28. apríl kl. 8-21. Skráning er nauðsynleg á vefsíðunni snallborgin.is.
Hugmynd er ekki skilyrði til þátttöku heldur fá allir að vera með sem vilja og geta þá verið í hóp með öðrum sem eru annaðhvort með ómótaðar hugmyndir eða lengra komnar. Það teymi sem kemur með bestu lausnina fyrir borgina að mati dómnefndar hlýtur 1.000.000 kr. í verðlaun.
Kallað er eftir hugmyndum um nýsköpun innviða og þjónustu í borginni, t.d. í velferðartækni, menntun, afþreyingu og samgöngum.