Fréttasafn12. mar. 2019 Almennar fréttir Menntun

Mín framtíð í þrjá daga í Laugardalshöllinni

Verkiðn býður öllum í heimsókn á Mín framtíð í Laugardagshöll dagana 14.–16. mars næstkomandi. Fimmtudaginn 14.3 og föstudaginn 15.3 er opið milli kl. 14 og 17 fyrir almenning. Laugardaginn 16. mars er opið milli klukkan 10 og 16. Í Laugardalshöllinni þessa daga kynna fræðsluaðilar fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi og fram fer keppni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Boðið er upp á ýmsa viðburði, kynningar og ekki síst að prófa, fikta, snerta og smakka. Aðgangur er ókeypis.

33 framhaldsskólar kynna fjölbreytt námsframboð

33 framhaldsskólar alls staðar af landinu kynna fjölbreytt námsframboð sitt. Nemendur, kennarar og náms- og starfsráðgjafar svara spurningum um námsframboð, félagslíf, inntökuskilyrði og annað sem gestir vilja vita um nám og störf.

30 iðn-, verk- og tæknigreinar

30 iðn-, verk- og tæknigreinar taka þátt en flestar greinarnar eru með keppendur á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Unga fólkið sýnir rétt handbrögð og tækni sinnar greinar um leið og það tekst á við krefjandi verkefni og spennuna sem fylgir því að keppa. Sigurvegarar fá margir hverjir tækifæri til að keppa í EuroSkills að ári.

7.000 grunnskólanemendur mæta

Það verður mikið líf og fjör í Laugardalshöllinni þessa þrjá daga þar sem um 7.000 grunnskólanemendur alls staðar af landinu munu koma fyrstu tvo dagana til að skoða, prófa og fræðast. Á svæðinu verða meðal annars BMX BRÓS, FabLab Reykjavík, Fagkonur, Félag náms- og starfsráðgjafa, Iðan fræðslusetur, Heimavist MA og VMA, Iðnú, Kvasir- samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, Rafmennt, Rannís, Samband Íslenskra framhaldsskólanema, Team Spark og Verksmiðjan RÚV.

Fjölskyldudagur á laugardeginum

Fjölskyldudagur er á laugardaginn kl. 10.00-16.00 en þá eru fjölskyldur sérstaklega boðnar velkomnar til að koma og fræðast, upplifa og skemmta sér. Í boði verður m.a. að helluleggja, klippa, flétta, krulla eða slétta hár, teikna grafík í sýndarveruleika, splæsa net, fara í ratleik, fara á ýmis örnámskeið, mæla blóðþrýsting, planta fræjum, þrívíddarprentun, smíða, prófa vélmenni, bora, sauma á iðnaðarsaumavél, leysa þrautir og fá verðlaun, sjá mjaltir og rúningu og að taka þátt í að útbúa lengstu blómaskreytingu sem gerð hefur verið á Íslandi.

Nánar um dagskrá mótsins á vefsíðunni verkidn.is.