Fréttasafn



23. sep. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Minna í pípunum á íbúðarmarkaði

Niðurstaðan er sem sagt sú að það eru um 6.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum. Við erum að sjá fækkun í heildarfjöldanum um 2,5% en á sama tíma í fyrra þá var um 20% fjölgun á milli talninga sem var gríðarlegur vöxtur. Þá reyndar voru sveitarstjórnarkosningar og byggingariðnaðurinn hafði á orði að sveitarstjórnir hefðu verið óvenju liðlegar svona í aðdraganda kosninga og afgreitt umsóknir sem hefur að einhverjum hluta skýrt vöxt á milli tímabila. En engu að síður erum við að sjá samdrátt núna í fyrsta skipti í svolítinn tíma. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í samtali við Kristján Kristjánsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina þegar þeir ræddu um íbúðamarkaðinn en Samtök iðnaðarins birtu nýlega niðurstöður íbúðatalningar.

Sigurður segir að það séu færri verkefni sem hafi farið af stað núna síðasta hálfa árið, það séu færri íbúðir sem ná að fokheldu en fleiri íbúðir sem séu fokheldar og yfir. „Við erum að spá færri fullbúnum íbúðum núna en áður. Þannig að það er minna í pípunum og þetta auðvitað rímar við ýmsar aðrar vísbendingar sem við höfum séð. Sala á sementi og steypustyrktarjárni hefur dregist saman svo dæmi séu tekin og þetta eru ákveðnar vísbendingar.“

Meiri sveiflur í byggingariðnaði en í hagkerfinu 

Hefur þetta eitthvað forspárgildi? „Já, ég mundi segja það. Þetta auðvitað rímar við þá staðreynd að hagkerfið er að kólna. Við sjáum samdrátt á þessu ári sem mun vara fram á næsta ár og staðreyndin er auðvitað sú að það eru meiri sveiflur í byggingariðnaði heldur en í hagkerfinu almennt. Þegar er uppgangur þá er hann mjög mikill og svo þegar það er samdráttur að þá dregst hratt saman. Þannig að það eru áhyggjurnar. Við sjáum að nú eru um 14.500 manns starfandi í byggingariðnaðinum sem er sami fjöldi og fyrir ári síðan. Þetta er í fyrsta sinn í svolítinn tíma sem er stöðnun en það hefur verið mikil aukning á undanförnum árum og með hliðsjón af því að það er minna í pípunum að þá má alveg búast við því að það verði fækkun starfa í byggingariðnaði í vetur.“

Flestar íbúðir í byggingu í póstnúmeri 101

Þeir Kristján og Sigurður rædd um að eftirspurnin væri mikil eftir íbúðum. „Það er auðvitað mjög sérstök staða. En staðan er sú að landsmönnum fjölgar stöðugt og allir þurfa þak yfir höfuðið. Það þarf alltaf fleiri og fleiri íbúðir og þess vegna þarf að byggja meira. En það ríkir ákveðinn markaðsbrestur á húsnæðismarkaðnum sem lýsir sér í því að fólk vill ódýrari og minni íbúðir en það er fyrst og fremst verið að byggja stærri og dýrari íbúðir. Það er staðreynd til dæmis að flestar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eða um 22% eru í byggingu í einu póstnúmeri sem er 101. Þar eru tæplega 1.100 íbúðir í byggingu og þeim fjölgar um 120 á milli talninga sem er talsvert mikil fjölgun. Sveitarfélögin hafa auðvitað mikið um það að segja hvar er byggt og hvað er byggt. Þannig að áherslan hefur verið á þéttingu sem er góðra gjalda vert en kannski hefur verið farið of hratt í sakirnar þar. Þessi markaðsbrestur er þá kannski afleiðing af þeirri stefnu sem Reykjavík og einhver önnur sveitarfélög hafa rekið.“

Langur framleiðslutími á íbúðum

Kristján spurði af hverju væri ekki svarað eftirspurninni um minni íbúðir? „Verktakarnir hugsa um það hvað er verið að byggja og reyna að leggja mat á það hvernig markaðurinn verður að tveimur, þremur eða fjórum árum liðnum því framleiðslutíminn er svo langur. Þannig að þegar þau verkefni sem fóru af stað sem eru að skila sér núna í fullbúnum íbúðum þá voru aðstæður kannski öðruvísi.“

Umbætur á íbúðamarkaði

Sigurður vék að umbótum á íbúðamarkaðnum. „Það er staðreynd að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins settu á laggirnar átakshóp í lok síðasta árs, átakshóp um umbætur á húsnæðis- og byggingamarkaði einmitt til þess að vinna á þessari stöðu og til þess að samhæfa aðgerðir í meira mæli. Við til dæmis hjá Samtökum iðnaðarins erum að tala um það að ábyrgðin á málaflokknum sé óskýr, heyrir undir mörg ráðuneyti, það eru öll sveitarfélög sem koma að þessu meira og minna, það eru margar stofnanir, þannig að einhvern veginn verður þetta óskýrt. En niðurstaðan af þessu átaki voru í kringum 40 tillögur sem snúa að regluverki, að leigumarkaði, bæði framboðs- og eftirspurnarhlið og svo framvegis. Unnið hefur verið að frekari útfærslu á þessum tillögum núna á þessu ári og niðurstöðurnar af þessari talningu hljóta að vera enn frekari hvatning til stjórnvalda um að hrinda þessum umbótum í framkvæmd þannig að við náum betri tökum á markaðnum. Þannig að þessum markaðsbresti verði eytt og hægt verði að byggja íbúðir í takt við markaðinn sem sé fyrirsjáanlegur og um leið verði dregið úr sveiflum á byggingarmarkaði.“

Hvað er það í tillögunum sem getur dregið úr þessum bresti? „Það er margt, regluverkið og aðgerðir sem flýta ferlinu og gerir það skilvirkara. Eins og ég nefndi áðan þegar verktakar hefja verkefnið þá eru kannski nokkur ár í að hægt sé að fara að selja íbúðir. Þannig að ef er hægt að stytta þann tíma þá er fyrirsjáanleiki og dregið úr ýmsum hindrunum. Þannig að þetta hjálpar allt saman til. En lykilatriðið er auðvitað það að bæði ríkisvaldið og sveitarfélögin taki þessi mál núna föstum tökum.“

Ferlið skilvirkara með byggingargátt

Sigurður nefndi eitt dæmi varðandi umbætur, hin svokallaða byggingargátt. „Það er verkefni sem  stjórnvöld hafa þróað sem er rafræn gátt þar sem upplýsingum frá sveitarfélögum er safnað saman um byggingaráform, um útgáfu byggingarleyfa, um úttektir og fleira. Þannig að ef sveitarfélögin mundu nú öll nýta þetta þá væri ferlið ekki bara skilvirkara heldur værum við með fullkomnar upplýsingar um markaðinn. Þessu til viðbótar koma húsnæðisáætlanir sem Íbúðalánasjóður vinnur með sveitarfélögunum. En ef þetta verður að veruleika sem fyrst, ég vona það, þá geta Samtök iðnaðarins hætt að telja íbúðir í byggingu. Það má segja að það sé kannski okkar helsta markmið til skemmri tíma litið allavega. Þetta er akkúrat það sem hefur vantað en sveitarfélögin þurfa auðvitað að innleiða þetta kerfi og þetta verklag. Einhver sveitarfélög hafa fundið að framsetningu á okkar upplýsingum á talningunni en með því að innleiða byggingargáttina þá geta þau verið laus við Samtök iðnaðarins út úr þeirri jöfnu. Það ætti nú að vera heilmikil hvatning fyrir þau.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Þeir Kristján og Sigurður ræddu einnig um hagkerfið. Á  vef Bylgjunnar er einnig hægt að hlusta á þann hluta.