Fréttasafn10. apr. 2017 Almennar fréttir

Mismunandi áhrif af styrkingu krónunnar á fyrirtæki innan SI

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, ræddi meðal annars áhrif styrkingar krónunnar á iðnfyrirtækin í landinu í samtali við Heimi Má Pétursson í Víglínunni á Stöð 2 um helgina. Hún sagði áhrifin vera mjög mismunandi. „Staðan eins og hún er núna í styrkingu krónunnar kemur mörgum fyrirtækjum innan SI vel en hún er að draga lífsþróttinn úr mörgum fyrirtækjum.“ Hún nefndi sem dæmi eigið fyrirtæki, Kjörís, sem styrkingin kemur sér vel. „Við erum að flytja inn mikið af hráefni og umbúðum og styrking krónunnar hefur hjálpað okkur til að mæta gríðarlega miklum launahækkunum sem hafa orðið. Á sama tíma höfum við staðið í fjárfestingum sem við höfum ekki getað staðið í síðan fyrir hrun. Við erum að endurnýja bílaflotann, endurnýja tæki til framleiðslunnar, endurnýja frysta og svo framvegis. Það er opinn gluggi fyrir okkur á meðan staðan er með þessum hætti en á sama tíma þá dregur þetta lífsþróttinn úr þeim fyrirtækjum sem eru í útflutningi.“ Hún nefndi að í samanburði við nágrannalöndin séu launahækkanir hér mun meiri. Aðspurð hvar jafnvægisgengið liggur þannig að nokkurn veginn allir gætu vel við unað sagði Guðrún eðlilegt verð á evru vera 160-180 krónur en er rúmlega 130 krónur núna.

Heimir Már spurði Guðrúnu hvort hægt væri að tryggja jafnvægi með krónunni, minnsta gjaldmiðli heims. Hún sagðist telja að það væri hægt, krónan væri ekki vandamálið í sjálfu sér frekar hagstjórnin á Íslandi. „Við náum aldrei stöðugleika og erum í höfrungahlaupi á vinnumarkaði. Þessar miklu sveiflar á gengi og verðlagi og svo spenna á vinnumarkaði gengur ekki upp. Það drepur atvinnulífið og skerðir samkeppnishæfnina.“

GH-Stod-2Þá sagði Guðrún að Ísland væri dæmigert samfélag sem er drifið áfram af náttúrulegum kröftum eins og stærð fiskistofna. „Við erum vertíðarþjóð. Þú finnur það í þjóðarsálinni. Þeir eiginleikar komu fram í kjölfarið á hrunina þar sem allir lögðust á eitt og við höfum náð undraverðum árangri í átt að uppbyggingu efnahagslífsins þannig að eftir er tekið í öðrum löndum.“ Hún sagði okkur vera auðlindardrifið hagkerfi sem væri vitaskuld erfitt og valdi þessum sveiflum.

Spurð hvort við ættum að taka upp evru sagði hún nauðsynlegt að við tækjum þá einnig upp þann lífstíl sem evran krefst. Byggt á eigin reynslu eftir að hafa búið í Þýskalandi sagði Guðrún Þjóðverja til að mynda aldrei fara í sumarfrí nema þeir eigi fyrir því og versla aldrei neitt út á krít. Þeir fari aldrei á eyðslufyllerí heldur leggi til hliðar. Hún nefndi einnig að ef við værum með evru þá væri henni stjórnað frá Evrópu og tók þá myndlíkingu að nú væri að vora hjá okkur en löngu komið vor annars staðar. „Nú eru Þjóðverjar að skrúfa fyrir miðstöðina á heimilum sínum, þeir ætla ekki að hita neitt því nú er að hitna í veðri en það er ennþá frost á Íslandi. Þeir mundu þá skrúfa fyrir hitann hér líka.“ 

Hér er hægt er að horfa á þáttinn.