Fréttasafn



13. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Starfsumhverfi

Misráðnar lagabreytingar á tímum mikils atvinnuleysis

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, í morgunútvarpi Rásar 2 um fyrirhugaðar breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi en Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda hafa sent inn umsögn um frumvarpsdrögin þar sem kemur fram að breytingarnar verði til þess að skerða samkeppnishæfni kvikmyndaiðnaðar á Íslandi. „Við gerum alvarlegar athugasemdir við þessar breytingartillögur. Helsta athugasemdin er sú að nú er verið að afmarka  talsvert hvað fellur undir framleiðslukostnað við kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu með þeim hætti að við teljum að það muni hafa þau áhrif að framleiðslufyrirtæki munu ekki lengur sjá sér hag í því að vera með fastráðið starfsfólk eða með launþegasamband. Stóru framleiðslufyrirtækin hér á landi sem hafa byggst upp með svo öflugum hætti að hluta til vegna þessa kerfis sem hefur verið okkur mjög heilladrjúgt pg þau hafa lagt áherslu á að ráða til sín starfsfólk í heilsársstörf. Til að mynda Sagafilm og Pegasus, sem eru tvö dæmi, eru með fjölmarga starfsmenn í fullu starfi sem koma svo inn í verkefni eins og þau koma inn til fyrirtækjanna. Núna er ekki hægt að fá endurgreiðslu á þátttöku þeirra starfsmanna í verkefninu og það mun þýða að framleiðslufyrirtækin munu sjá sér hag í því að segja upp þessu starfsfólki og ráða til baka sem verktaka  til þess að fullnýta kosti kerfisins. Þetta eru skakkir hvatar, sérstaklega á tímum mikils atvinnuleysis. Það er sennilega stærsta meinsemdin í hagkerfinu í dag þetta gríðarlega mikla atvinnuleysi og okkur finnst þetta misráðið skref.“

Sigríður segir breytingarnar geti leitt til gervi-verktöku og sé í raun verið að breyta ráðningasambandi. „Þetta er auðvitað frekar alvarlegt að mínu mati að stjórnvöld stígi fram með þessar breytingar án samráðs við kvikmyndagreinina því það var lítið sem ekkert samráð haft við kvikmyndaiðnaðinn við útfærslu á þessu frumvarpi. Mér finnst það sérstaklega skjóta skökku við í núverandi atvinnuástandi. Ég er ekki viss um að ráðuneytið hafi gert sér grein fyrir þessum áhrifum. Ég efast um að þetta sé markmiðið. Það væri auðvitað mjög slæmt í þessu ástandi að sjá líka uppsagnir í kvikmyndaiðnaðinum.“

Hún segir að heilt yfir verði þessar breytingar til þess að skerða samkeppnishæfni Íslands á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar. „Þetta er algjört lykilatriði því við erum í harðri alþjóðlegri samkeppni um þessi verkefni. Kvikmyndagerð og -menning hefur blómstrað á Íslandi á undanförnum áratug. Það er ekki þrátt fyrir þetta kerfi, það er vegna þessa endurgreiðslukerfis.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild sinni.

RÚV, 13. janúar 2020.