Fréttasafn



25. nóv. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Mjög miklir hagsmunir af efnahagslegri velgengni Evrópu

Eins og við vitum í gegnum aðild Íslands að EES þá höfum við ríka og mjög mikla hagsmuni af velgengni Evrópu sem efnahagssvæðis. Þetta er okkar stærsti og mikilvægasti markaður. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI og formaður ráðgjafaráðs EES, meðal annars á Morgunvakt Rásar 1 þar sem hún er stödd í Brussel. Þar ræðir Björn Malmquist fréttamaður í Brussel við Sigríði í tengslum við leiðtogafundi EES-ráðsins. Hún segir að rauði þráðurinn í dagskránni sé samkeppnishæfni Evrópu og Evrópusambandsins sem hafi áhrif á Ísland. 

Evrópa er að dragast aftur úr

Sigríður segir í viðtalinu að samkeppnishæfnin sé ekki bara tengd innrás Rússa í Úkraínu, síður en svo þó það sé auðvitað grafalvarleg staða. Þetta sé í rauninni burtséð frá þeim vanda sem Evrópa standi frammi fyrir í öryggismálum þá hafi þessi þróun átt staðið yfir um langt skeið. „Ísland fer ekki varhluta af því á endanum. auðvitað er ég að tala fyrir hönd allrar ráðgjafanefndarinnar en ég er með Íslands-hattinn á mér og við höfum þungar áhyggjur af samkeppnishæfni Evrópu sem efnahagssvæðis í samanburði við önnur stór efnahagssvæði. Það sé bara og staðfestis ítrekað í skýrslum og hagtölum að Evrópa er að dragast aftur úr og hefur verið að gera það um skeið, í fjárfestingum, í nýsköpun, í iðnaði osfrv. þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að vera mjög vakandi fyrir á Íslandi.“

Ný framkvæmdastjórn ESB að vakna upp af værum svefni eða martröð

Þá segir Sigríður í viðtalinu að það sé verið að fókusera á regluverkið, regluverkið í Evrópu og hjá Evrópusambandinu sem að stórum hluta sé tekið upp í EES-samninginn og komi að stórum hluta til Íslands hafi verið gríðarlega íþyngjandi. „Sem betur fer er ný framkvæmdastjórn ESB að vakna upp, ég veit ekki hvort á að segja, af værum svefni eða martröð, gagnvart því að það er kannski bara búið að kæfa frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun, fjárfestingar, atvinnustarfsemi og iðnað í Evrópu vegna íþyngjandi regluverks. Við erum að fókusera frá þeirri hlið. Við erum að horfa á EES innleiðingarnar og stöðu EES svæðisins í heild, stöðu Íslands, Noregs og Liechtenstein gagnvart EES. Og svo stöðuna varðandi fríverslunarmálin. Við erum að horfa á regluverkið mikið og ein af ráðleggingum skýrslu sem við gáfum út í maí og sendum á öll aðildarríki. Þar segjum við að það ætti í hverri einustu löggjöf sem er tekin upp innan ESB sem er EES tæk og mun koma inn í EES-samninginn ætti að gera sérstakt samkeppnishæfnis-tékk um leið til að skoða hvaða áhrif það mun hafa á samkeppnishæfni svæðisins. Þetta er gríðarlega mikilvæg ábending ef hún hefði verið tekin upp fyrir nokkrum árum væri Evrópa líklega á betri stað hvað þessi mál varðar.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild sinni frá mínútu 00:57:00. 

Rás 1, 25. nóvember 2024.