Fréttasafn



16. okt. 2015 Iðnaður og hugverk

Móðir jörð hlýtur Fjöreggið 2015

 Móður Jörð hlaut í gær Fjöregg MNÍ, en verðlaunin eru veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðmaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins afhenti fjöreggið í gær á Matvæladegi MNÍ við hátíðlega athöfn.

Verðlaunagripurinn er íslenskt glerlistaverk, sem táknar Fjöreggið og hefur verið gefið af SI frá upphafi, í yfir 20 ár. 

Fjölbreytt flóra tilnefninga barst undirbúningsnefnd fyrir veitingu Fjöreggsins. Tilnefnd voru fyrirtæki, framleiðsluvörur, upplýsingaveitur um matvæli og næringu og einstaklingar.

Í umsögn dómefndar segir meðal annars: „ Móðir Jörð er tilnefnt fyrir að framleiða spennandi íslensk matvæli úr jurtaríkinu. Fyrirtækið byggir sína framleiðslu á sjálfbærni og lífrænt ræktuðu hráefni. Hjá fyrirtækinu er lögð mikil áhersla á að þróa afurðir úr nánasta umhverfi og hafa fjölmargar nýjungar komið frá Móður Jörð á síðustu árum.  

Aðrir tilnefndir voru:

  • Búrið ehf. fyrir skemmtilega og nýstárlega nálgun á íslenska sælkeramarkaðnum.
  • Veitingastaðurinn Matur og drykkur fyrir að gera íslenska eldhúsinu hátt undir höfði.
  • Skaftafell Delicatessen fyrir að framleiða sælkeravörur úr kindakjöti úr Öræfum.
  • Fyrirtækið Skólar ehf. fyrir rekstur 5 heilsuleikskóla í jafnmörgum sveitarfélögum. 

Dómnefnd Fjöreggsins 2015 skipuðu  Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Ásmundur Þorkelsson, matvælafræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Eva Laufey Kjaran, matgæðingur og fjölmiðlakona hjá 365, Ingibjörg Gunnarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur og prófessor við HÍ og Jón Ögmundsson, matvælafræðingur og sérfræðingur í gæðamálum hjá Lýsi.