Fréttasafn



1. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Mörg mikilvæg verkefni framundan í íslenskum iðnaði

Árni Sigurjónsson, formaður SI, flutti ávarp við opnun á Iðnaðarsýningunni 2023 í Laugardalshöll að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Í ávarpi sínu sagði Árni að íslenskur iðnaður væri ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs en greinin skapi ríflega fjórðung landsframleiðslunnar. Hann sagði að á íslenskum vinnumarkaði væru 46 þúsund launþegar starfandi í iðnaði eða einn af hverjum fjórum og iðnaðurinn skili um 44% útflutningstekna af fjölbreyttri starfsemi á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Hann sagði þessar tölur undistrika umfang og mikilvægi iðnaðarins í gangverki hagkerfisins. Þá sagði Árni að Íslendingar væru í einstakri stöðu að skapa ný atvinnutækifæri og ný störf, ekki síst í hugverkaiðnaði og á grunni hinna grænu umbreytinga, sem myndu stuðla að bættum lífskjörum og velferð þjóðarinnar allrar. „Við eigum gnægð náttúruauðlinda sem við höfum nýtt á sjálfbæran hátt í áratugi. Sú staðreynd setur okkur í ákjósanlega og eftirsóknarverða stöðu, til að mynda þegar kemur að öflun nýrrar orku til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta á Íslandi og nýrra tækifæra í iðnaði. Þau mál þola enga bið eins og við höfum ítrekað bent á mörg undanfarin ár.“

Þá sagði Árni að við ættum einnig mikinn mannauð, búum að mikilli þekkingu og menntunarstig þjóðarinnar væri hátt. „Samtök iðnaðarins hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að fjölga nemendum í iðn- og tækninámi og hefur það skilað þeim árangri að aðsókn er langt umfram það sem skólarnir geta tekið við. Því miður hefur þurft að vísa fjölda áhugasamra umsækjenda frá. Því er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulífið vinni áfram saman að því að efla og fjölga fagfólki í iðnaði og leiti allra leiða svo áhugasamir nemendur á öllum aldri komist að og fái tilhlýðilega menntun. Ávinningurinn af slíku samstarfi er ótvíræður.“

Jafnframt sagði Árni að skortur á nýju íbúðarhúsnæði væri fyrirliggjandi og ljóst væri að þar þurfi að ráðast í mikla uppbyggingu sem og í viðhaldi og byggingu innviða um allt land. „Þá má ekki slá slöku við í verkefnum í orkuöflun og nýsköpun í grænum lausnum til að ná því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 í samræmi við markmið stjórnvalda. Hugverkaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr enda er hann nú orðinn fjórða stoðin í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Það eru því mörg mikilvæg verkefni framundan í íslenskum iðnaði og hann hefur aldrei verið öflugri og fjölbreyttari en einmitt núna. Sú sýning sem við opnum nú í dag mun vafalítið sýna okkur þá fjölbreytni og þann kraft sem einkennir íslenskan iðnað.“

Á Iðnaðarsýningunni eru á annað hundrað fyrirtæki sem sýna fjölbreyttar vörur og lausnir. Sýningin stendur í þrjá daga fram til 2. september.

Opnunartímar sýningarinnar:

  • Fimmtudagur 31. ágúst kl. 14-19
  • Föstudagur 1. september kl. 10-18
  • Laugardagur 2. september kl. 10-17

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir.

Si_idnadarsyningin_a-2Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri sýningarinnar, Inga Ágústsdóttir, sýningarstjór, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Árni Sigurjónsson, formaður SI, opnuðu sýninguna formlega í Laugardalshöll í dag.

Árni Sigurjónsson, formaður SI, flutti ávarp á opnunni.

Si_idnadarsyningin_2023-1

Si_idnadarsyningin_2023-26

Fréttatíminn, 4. september 2023.