Mörg og fjölbreytt fyrirtæki í bygginga- og mannvirkjaiðnaði
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, ræddi í morgunútvarpi Rásar 2 um sýninguna Verk og vit sem hefst á morgun. Á sýningunni kynna fyrirtæki og stofnanir í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum vörur sínar og þjónustu og hafa Samtök iðnaðarins hafa tengst sýningunni frá byrjun. Fyrstu tveir dagar sýningarinnar eru fyrir fagaðila og um helgina er sýningin opin almenningi. „Það er gaman að sjá hve almenningur er oft hissa á því hve mikið er um að vera og hversu mörg og fjölbreytt fyrirtæki eru í þessum iðnaði. Á föstudaginn ætlum við líka að taka á móti um 1.700 grunnskólanemendum. Það er mikilvægur liður í því sem við gerum hjá Samtökum iðnaðarins að hvetja ungt fólk að fara í iðnnám. Það er gríðarlegur skortur á duglegu fólki. Í bygginga- og mannvirkjagerð er gríðarlegur skortur á fólki og fyrirtækin berjast um fólk sem fer í iðnnám. Við erum bara að hvetja fólk til að skoða þessa grein. Það eru 18.000 manns sem starfa í bygginga- og mannvirkjagerð á Íslandi. Þetta er grein sem veltir um 600 milljörðum á ári.“
Synjun nemenda í iðnnámi er þróun sem verður að snúa við
„Það er dapurt þegar maður sér eftirspurnina eftir þessu fólki og það er verið að synja um 600-1.000 nemendum á ári. Þetta er þróun sem við verðum að snúa við. Við verðum að finna leiðir til að fá ungt fólk til að klára iðnnám því eftirspurnin er til staðar. Við sjáum núna í fjármálaáætlun að það á að byggja við loksins við verkmenntaskóla úti á landi og það er mjög mikilvægt að við náum að byggja upp nýjan Tækniskóla til að mæta þörfum framtíðar og þörfum iðnaðarins. Við höldum að það sé að fara að gerast.“
Í viðtalinu ræðir Jóhanna Klara einnig um fjárfestingu í samgönguinnviðum og þá viðhaldsskuld sem orðin er í vegakerfinu.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Jóhönnu Klöru frá mínútu 27:04.
Rás 2, 17. apríl 2024.