Fréttasafn10. jan. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mótmæla óhóflega íþyngjandi stjórnvaldssektum

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti kemur fram að um sé að ræða óhóflega íþyngjandi stjórnvaldssektarákvæði þar sem sektarfjárhæðir frumvarpsdraganna séu með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Í umsögninni segir að þegar til standi að lögfesta stjórnsýsluviðurlög við brotum þurfi að líta til ákveðinna grunnsjónarmiða sem byggist á grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf. Varast skuli að fara í öfgar með lögfestingu slíkra stjórnsýsluviðurlaga. Með vísan til meðalhófsreglunnar þurfi að leggja mat á það hvort önnur og vægari úrræði stjórnvalda komi ekki að nægu haldi og hvort viðurlögin séu skilvirk, markviss og hófleg miðað við eðli brots. 

Stjórnvaldssektir gætu orðið allt að 10% af heildarveltu

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við það að ekkert slíkt mat virðist liggja til grundvallar 100. gr. frumvarpsdraganna þar sem lagt sé til að veita Póst- og fjarskiptastofnun heimild til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á ákvæðum laganna allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtæki sem eiga aðild að broti. Þá segir í umsögninni að því til viðbótar séu m.a. dagsektarheimildir og refsiákvæði vegna brota sem framin séu af ásetningi. 

Íþyngjandi ákvæði verði ekki neytendum til tjóns

Jafnframt kemur fram í umsögninni að engin rök standi til þess þegar litið sé til samanburðarlanda okkar að sektarfjárhæð sé svo há sem lagt sé til í frumvarpsdrögunum. Það dugi að mati samtakanna ekki að vísa, án frekari rökstuðnings, til annarra lagabálka eins og gert sé í greinargerð með frumvarpsdrögunum. Þá kemur fram að ef setja eigi refsi- og sektarákvæði í löggjöfina sé mikilvægt að gætt sé áhrifa slíkra ákvæða, þau metin og að ákvæðin séu ekki svo íþyngjandi að þau verði neytendum til tjóns.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.