Fréttasafn5. nóv. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Múr- og málningarþjónustan Höfn áfrýjar dómi

Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. sem er aðildarfyrirtæki SI áformar að áfrýja til Landsréttar dómi sem féll í máli húsfélagsins Torfufelli 25-35 gegn Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. og THG Arkitektum vegna verks sem unnið var árið 2010. 

Niðurstaða dómsins sem féll fyrir nokkru er að Múr- og málningarþjónustan Höfn bæri sem verktaki í málinu skaðabótaábyrgð vegna frágangs, ísetningar og þéttingar með nýjum gluggum, næturlokana og nýrra glugga sem uppfylltu hvorki kröfur í verklýsingu né byggingarreglugerð. Í vörnum Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar var því haldið fram að krafan væri fyrnd, um hafi verið að ræða vöru sem hafi haft fullnægjandi vottanir og hafi staðist álagspróf hér á landi ásamt því sem hafnað var að verktaki væri látinn bera ábyrgð á vali húsfélagsins Torfufelli 25-35 á gæðaminni plastgluggum, gegn ráðleggingum Múr- og málningarþjónustunnar Höfn.

Í dómnum er komist að því að um galla sé að ræða og að krafan sé ekki fyrnd. Vísað er til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, þar sem segir að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda og því haldið fram að húsfélagið hafi fyrst getað átt rétt til efnda þegar lokaúttekt byggingarfulltrúa fór fram. Telur Múr- og málningarþjónustan Höfn að túlkun héraðsdóms á lögum um fyrningu kröfuréttinda sé langsótt og ekki í samræmi við dómaframkvæmd og mun því áfrýja málinu til Landsréttar.