Fréttasafn



14. maí 2020 Almennar fréttir

Náð gríðarlega miklum árangri á síðustu árum

„Það er enginn dagur eins,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þar sem rætt er um starf hans sem formaður samtakanna og stöðuna í efnahagslífinu. Þegar Árni er spurður í hverju formannsstarfið felist segir hann það vera mjög fjölbreytt.  „Vera í forsvari fyrir samtökin, leiða stjórnina, koma út á við fyrir hönd stjórnar í fjölmiðlum og vera í nánum tengslum við félagsmenn. Samtökin standa fyrir mikið af viðburðum og fundum og þar hefur formaður oft aðkomu, að vera allavega á svæðinu eða sem þátttakandi. Og svo er það á vettvangi Samtaka atvinnulífsins þar sem við erum stærsti hlutinn, iðnaðurinn. Samskipti við starfsfólk, framkvæmdastjóra og annað slíkt.“

Talsmaður allra fyrirtækjanna innan samtakanna

Árni er spurður að því þar sem hann komi frá Marel sem sé stórt fyrirtæki hvort hann sé formaður stóru fyrirtækjanna en ekki litlu fyrirtækjanna? „Ég blæs á það. Um leið og allir þeir aðilar sem setjast í stjórn þarna taka að sér sæti þá átta þeir sig á því að við erum að vinna fyrir samtökin í heild. Þetta eru mjög breið samtök, bæði litlir aðilar og stórfyrirtæki, en þú þarft að geta spannað þetta allt saman. Ég er talsmaður allra þessara aðila. Hvort sem þeir eru stórir, miðlungsstórir eða litlir.“

Þá er Árni spurður um áhrif á ákvarðantöku sjtórnvalda? „Við skulum vona það. Það er allavega markmiðið. Ég vil meina að samtökin sem slík og hverjir eru í brúnni geti auðvitað skipt máli, eigi að hafa áhrif og hafa haft áhrif. Ég vil meina að við höfum náð gríðarlega miklum árangri á síðustu árum. Okkar áherslumál hafa notið skilnings og stuðnings bæði inni á þingi, hjá stjórnvöldum, í atvinnulífinu og hvar sem er.“ 

Megum engan tíma missa

Árni segir að núna sé aðallega skammtímafókus. „Það er það sem atvinnulífið stendur í. Við erum auðvitað að horfa á að verja afkomu fólks og fyrirtækja á þessum tímapunkti. Við höfum lagt okkar af mörkum í þessari vinnu stjórnvalda í aðgerðarpökkunum. Við komum með okkar tillögur og fókus þar inn. Það sem við erum að horfa á núna er að fylgja því svo eftir. Bæði þegar þetta er komið inn á þing og eftir á varðandi framkvæmdina. Hún sé gegnsæ og hröð af því við megum engan tíma missa. Sérstaklega ef við horfum á þessi tvö mánaðarmót.“ Hann segir að til þess að þetta virki þá þurfi aðgerðirnar að komast til framkvæmda. „Þessar aðgerðir eru góðra gjalda verðar og við höfum stutt við og fagnað þessm aðgerðum. Þar er fókusinn hjá okkur númer eitt, tvö og þrjú þessa dagana.“

Mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Ísland

Árni segir að hins vegar verðum við að passa okkur á því líka að gleyma ekki stóru myndinni og langtímamarkmiðunum. „Þar höfum við margt fram að færa, til dæmis mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Ísland. Við þurfum að ákveða hvert við ætlum að fara og þið hafið heyrt um Ísland 2.0. Hvernig búum við til ný störf og hvernig ætlum við að vaxa. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli þannig að allir geti gengið í takt.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Árna í heild sinni.