Fréttasafn



29. nóv. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Nægt land í Reykjavík til að brjóta undir nýja byggð

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, fréttamaður, ræðir við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um stöðuna á íbúðamarkaði í kvöldfréttum Stöðvar 2. Ingólfur segir enn vera skort á lóðum í Reykjavík og uppbygging nýs íbúðarhúsnæðis sé ekki að mæta þörf. Þá taki skipulagsferlið í kringum nýbyggingar alltof langan tíma. Hægt væri að ná fram meiri hagkvæmni með því að einfalda regluverk. 


Ingólfur segir í fréttinni að þó megi sjá meiri stöðugleika í framboði en áður. „Þetta er ekki nægilega mikið af íbúðum sem eru að koma inn á ári en þeirra mat (HMS) hefur verið að það þurfi að koma rétt um þrjú þúsund og fimm hundruð tilbúnar íbúðir á ári.“ Ingólfur segir í frétt Stöðvar 2 Reykjavík vera stóra í þessu, „en borgaryfirvöld hafa því miður ekki verið að standa sig nægjanlega. Svo eru fleiri sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu eins og Kópavogur þar sem vantar land. Það er þó ekki staðan í Reykjavík því þeir hafa nægt land til að brjóta undir nýja byggð. “ 

Skipulagsferli tekur alltof langan tíma

„Skipulagsferlið tekur einfaldlega alltof langan tíma frá upphafi til enda. Við sjáum líka ósamræmi milli byggingafulltrúa til að mynda. Þannig að það er þetta stig byggingarframkvæmdanna sem má bæta og flýta þá framkvæmdum. Í leiðinni væri verið gera þetta ódýrara og hagkvæmara. Til hagsbóta fyrir byggingaraðila og heimilin í landinu.“ segir Ingólfur.

Framboð á nýju húsnæði er lykilþáttur

Í fréttinni kemur fram að vegna mikilla verðhækkana á húsnæði undanfarin ár og hás vaxtarstigs hafi ungu fólki reynst sífellt erfiðara að kaupa sér húsnæði. Ingólfur segir því gríðarlega mikilvægt að byggingar á nýju húsnæði uppfylli fyrirliggjandi þörf. „Lykilþátturinn í þessu er framboðið. Að við sköffum nægt framboð til að mæta þörfum ekki síst þessara stóru hópa sem eru að koma inn á markaðinn.“ 

Stöð 2/Vísir, 28. nóvember 2022.