Fréttasafn



27. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Nær uppselt á sýningarsvæði Verk og vit

Nær uppselt er á stórsýninguna Verk og vit sem haldin verður í fimmta sinn dagana 12.-15. mars næstkomandi í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Um 100 sýnendur hafa þegar skráð sig til leiks. Samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn. Sýningin er ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðar, skipulagsmála og mannvirkjagerðar. Meðal sýnenda eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, skólar, fjármála-, ráðgjafa-, og hugbúnaðarfyrirtæki, sveitarfélög, tækjaleigur svo eitthvað sé nefnt. Þá gefst almenningi og nemendum einnig kostur á að að kynna sér þessar mikilvægu atvinnugreinar. Sýningin verður opin fagaðilum á fimmtudegi og föstudegi og opinn almenningi laugardag og sunnudag. 

Á síðustu Verk og vit sýningu árið 2018 var slegið aðsóknarmet en um 25.000 gestir komu á þá sýningu, þar sem um 110 sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu.

Á myndinni fyrir ofan eru samstarfsaðilar Verk og vit ásamt framkvæmdaaðilum sýningarinnar, talið frá vinstri, Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, Þorsteinn Stefánsson, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, Árni Reynir Alfredsson, markaðsstjóri BYKO, Áslaug Pálsdóttir framkvæmdastjóri Verk og vit, og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit.